Innlent

Mun á­fram leiða lista Fram­sóknar í Múla­þingi

Atli Ísleifsson skrifar
Jónína Brynjólfsdóttir.
Jónína Brynjólfsdóttir.

Stjórn Framsóknarfélags Múlaþings hefur farið þess á leit við Jónínu Brynjólfsdóttur að hún muni áfram leiða lista Framsóknar í Múlaþingi í komandi sveitarstjórnarkosningum sem fram fara 16. maí næstkomandi.

Stjórnin samþykkti á dögunum að skipa uppstillingarnefnd sem falið er að gera tillögu að skipan framboðslista en nefndina skipa þau Atli Vilhelm Hjartarson, Eygló Björg Jóhannsdóttir, Stefán Bogi Sveinsson og Vigdís Sveinbjörnsdóttir.

„Stjórn samþykkti jafnframt að fara þess á leit við Jónínu Brynjólfsdóttur að hún leiði lista Framsóknar í Múlaþingi áfram, en hún hefur verið oddviti listans og starfað sem forseti sveitarstjórnar frá 2022. Er hún að mati stjórnar traustur leiðtogi með sterka samfélagslega sýn og víðtæka þekkingu á málefnum Múlaþings sem hefur sýnt bæði frumkvæði og festu í störfum sínum í þágu sveitarfélagsins og íbúa þess. Jónína hefur samþykkt að gefa kost á sér til að leiða listann og mun hún vinna náið með uppstillingarnefndinni að mótun framboðslistans.

Öll þau sem hafa áhuga á að taka þátt í framboðsstarfi Framsóknar í Múlaþingi, eða gefa kost á sér á framboðslista, eru hvött til að setja sig í samband við uppstillingarnefndina.

Stjórn Framsóknarfélags Múlaþings hlakkar til áframhaldandi vinnu við að byggja upp öflugt framboð sem endurspeglar fjölbreytni, kraft og framtíðarsýn samfélagsins í Múlaþingi,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×