Fótbolti

Immobile skaut Bologna í úr­slit

Valur Páll Eiríksson skrifar
Immobile var hetja kvöldsins.
Immobile var hetja kvöldsins. Yasser Bakhsh/Getty Images

Bologna er komið í úrslit ítalska ofurbikarsins í fótbolta sem leikinn er í Sádi-Arabíu. Vítaspyrnukeppni þurfti til að útkljá undanúrslitaleik liðsins við Inter.

Inter-liðar byrjuðu umtalsvert betur í kvöld þar sem þeir komust yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik þökk sé marki franska landsliðsframherjans Marcusar Thuram. Sú forysta entist fram á 35. mínútu þegar Riccardo Orsolini jafnaði af vítapunktinum.

Sú 1-1 staða hélst allt fram í lok leiks og gripið til vítaspyrnukeppni eftir 90 mínútur.

Lautaro Martínez og Lewis Ferguson skoruðu úr sitthvorri spyrnunni í upphafi en í kjölfarið komu fimm klúður í röð. Alessandro Bastoni, Nicolo Barella og Ange-Yoan Bonny klúðruðu allir af punktinum fyrir Inter og þeir Nikola Moro og Juan Miranda fyrir Bologna.

Jonathan Rowe kom Bologna 2-1 yfir áður en Stefan De Vrij jafnaði. Það var á herðum markahróksins reynslumikla, Ciro Immobile, að tryggja Bologna áfram og var það aldrei spurning.

Mark hans af punktinum skaut Bologna í úrslit þar sem liðið mætir Napoli þann 22. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×