Handbolti

Eva Björk með stór­leik í fyrsta sigri Stjörnunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eva Björk Davíðsdóttir kom með beinum hætti að 21 marki gegn Fram.
Eva Björk Davíðsdóttir kom með beinum hætti að 21 marki gegn Fram. vísir/hulda margrét

Eftir að hafa aðeins fengið eitt stig í fyrstu tíu leikjum sínum í Olís-deild kvenna vann Stjarnan loks sinn fyrsta leik á tímabilinu þegar liðið fékk Fram í heimsókn í dag. Lokatölur 34-31, Garðbæingum í vil.

Stjarnan er áfram á botni deildarinnar en nú með þrjú stig, einu stigi á eftir Selfossi sem er í sætinu fyrir ofan. Fram, sem hafði unnið þrjá leiki í röð fyrir viðureign dagsins, er í 4. sætinu með ellefu stig.

Eva Björk Davíðsdóttir fór mikinn í leiknum í Mýrinni í dag, skoraði þrettán mörk og gaf átta stoðsendingar fyrir heimakonur. Natasja Hammer skoraði sex mörk, Inga María Reynisdóttir fimm og Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði sextán skot í marki Stjörnunnar (34 prósent).

Leikurinn var í járnum allan tímann. Stjarnan leiddi með einu marki í hálfleik, 14-13, og hélt forskotinu framan af seinni hálfleik. Fram sneri dæminu sér í vil um miðbik hans og komst nokkrum sinnum tveimur mörkum yfir.

Stjarnan breytti stöðunni úr 24-26 í 27-26 en Fram jafnaði í 27-27 og liðin héldust svo í hendur næstu mínútur.

Garðbæingar reyndust hins vegar sterkari á svellinu á lokamínútunum, skoruðu fimm af síðustu sjö mörkum leiksins og lönduðu sigri, 34-31.

Harpa María Friðgeirsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir skoruðu sex mörk hvor fyrir Fram og Valgerður Arnalds fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×