Erlent

Kvarta yfir rit­skoðun Epstein-skjala: „Við vitum ekki hvað við vitum ekki“

Samúel Karl Ólason skrifar
Blaðsíður úr skölum sem hafa verið birt hafa margar alfarið verið svertar, svo birting þeirra þjónar engum tilgangi. Óljóst er hvenær og jafnvel hvort dómsmálaráðuneytið mun afhenda þingmönnum yfirlit um þær upplýsingar sem ekki voru birtar eða huldar.
Blaðsíður úr skölum sem hafa verið birt hafa margar alfarið verið svertar, svo birting þeirra þjónar engum tilgangi. Óljóst er hvenær og jafnvel hvort dómsmálaráðuneytið mun afhenda þingmönnum yfirlit um þær upplýsingar sem ekki voru birtar eða huldar. AP/Jon Elswick

Fórnarlömb kynferðisbrotamannsins Jeffreys Epstein hafa lýst yfir vonbrigðum með það hvernig forsvarsmenn dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna hafa birt Epstein-skjölin svokölluðu. Mikill skortur sé á gagnsæi en upplýsingar hafa verið huldar á fjölmörgum skjölum.

Þingmennirnir sem komu að því að þvinga ríkisstjórnina til að birta gögnin hafa gagnrýnt ráðuneytið vegna þess hvernig þau eru og hafa verið birt. Lögum samkvæmt átti að birta þau öll fyrir lok síðasta föstudags. Það var ekki gert, heldur var hluti þeirra birtur og mörg skjölin voru þakin svörtum lit og upplýsingar huldar.

Þá sögðu lögin að eingöngu mætti hylma yfir upplýsingar til að vernda fórnarlömb Epsteins og ólögráða aðila. Auk þess sem ekki má birta klámfengið efni, ríkisleyndarmál eða upplýsingar sem geta komið niður á yfirstandandi rannsóknum.

Á föstudaginn voru rúmlega þrettán þúsund skrár birtar. Búið var að fela upplýsingar á mörgum þeirra og er ekki hægt að leita auðveldlega í skjölunum. Fleiri skjöl voru svo birt í gær.

„Yfirhylmingin heldur áfram“

New York Times hefur eftir Jess Michaels, sem segir að Epstein hafi brotið á sér árið 1991, þegar hún var 22 ára gömul, að með aðgerðum sínum sé ráðuneytið að staðfesta grunsemdir fórnarlamba Epsteins.

„Þeir eru að sanna allt sem við höfum verið að segja um spillingu og tafir á réttlæti,“ sagði hún. „Hvað eru þeir að vernda. Yfirhylmingin heldur áfram.“

„Ef það er búið að hylma yfir allt, hvar er þá gagnsæið?“ spurði Marijke Chartouni. Hún segir Epstein hafa brotið á sér þegar hún var tuttugu ára.

Tannlaus lög

Áðurnefnd lög segja einnig til um að ráðuneytið á að útvega þinginu lista yfir hvaða upplýsingar hylmt var yfir í skjölunum og á að gera það innan fimmtán daga eftir að skjölin voru birt. Það tekur þó mið af því að skjölin hefðu öll verið birt á sama deginum, sem ekki var gert, og vekur upp spurningar um hvenær ráðuneytið ætli sér að veita þinginu þessar upplýsingar, ef það stendur yfir höfuð til.

Lögmaður sem AP fréttaveitan ræddi við sagði að þó lögin hefðu sagt til um að ráðuneytið ætti að birta öll skjölin á föstudaginn, væri engin leið samkvæmt þeim til að þvinga ráðuneytið til að birta skjölin eða útskýra hvað væri ekki birt og af hverju.

Lögin væru í raun tannlaus.

„Við vitum ekki hvað við vitum ekki.“

BBC hefur eftir Day að það hvernig upplýsingar hafi verið huldar á skjölunum muni leiða til frekari samsæriskenninga um mál Epsteins.

Önnur fórnarlömb Epsteins sem blaðamenn hafa rætt við slá á svipaða strengi.

Marina Lacerda, sem segir Epstein hafa brotið á sér þegar hún var fjórtán ára, segir fórnarlömb hans óttast að ef og þegar gögnin hafa verið birt, muni þau öll vera eins og skjölin í fyrstu skömmtunum. Búið verði að takmarka verulega þær upplýsingar sem á þeim mætti finna.

Segja ráðuneytið klárlega brjóta lög

Todd Blanche, aðstoðardómsmálaráðherra, sagði á föstudaginn að búið væri að bera kennsl á rúmlega 1.200 fórnarlömb Epsteins eða ættingja þeirra og þær upplýsingar sem búið væri að afmá hefðu getað verið notaðar til að bera kennsl á þetta fólk.

Hann segir ekki verið að hylma yfir neinar upplýsingar nema þær sem lögin segja til um að eigi að fela.

Þingmennirnir Ro Khanna, demókrati, og Thomas Massie, sem leiddu tilraunina til að þvinga ríkisstjórnina til að birta Epstein-skjölin segja þó klárt að ráðuneytið sé ekki að fara eftir lögum.

Þeir hafa einnig kvartað yfir því að í þeim skjölum sem búið er að birta séu ekki upplýsingar um umdeilt samkomulag sem Epstein gerði á árum áður við saksóknara í Flórída.

Undir lok árs 2007, þegar Epstein var bæði til rannsóknar hjá lögreglunni í Flórída og Alríkislögreglunni, gerði hann umdeilt samkomulag við saksóknarann Alex Acosta.

Samkomulagið fól í sér að Epstein sat í fangelsi í þrettán mánuði fyrir að misnota á fjórða tug ungra stúlkna undir lögaldri í New York og Flórída frá árunum 2002 til 2005. Samkomulagið gerði honum kleift að komast hjá alríkisákærum og kom í veg fyrir að hægt væri að ákæra einhverja af samverkamönnum Epsteins.


Tengdar fréttir

Það helsta úr fyrsta skammti Epstein-skjalanna

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna birti í gær þúsundir skjala sem tengjast máli Jeffreys Epstein, barnaníðingsins fræga og látna. Tiltölulega fljótt þótti þó ljóst að skjölin sem birt voru stæðust ekki væntingar margra um að varpa frekara ljósi á málið.

Epstein-skjölin birt

Epstein-skjölin hafa verið birt á vefsíðu dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Birting skjalanna hafa valdið miklum usla vestanhafs en þau tengjast rannsóknum á barnaníðingnum Jeffrey Epstein.

Auðgaðist ævintýralega á svikum og prettum

Áður en Jeffrey Epstein var sakaður um að hafa brotið á fjölda stúlkna og ungra kvenna um árabil, hafði hann safnað umfangsmiklum auðæfum. Hvernig hann gerði það hefur aldrei verið ljóst en svo virðist sem hann hafi að mestu gert það með svikum og prettum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×