Innlent

Hljóti að vera komið að því að skoða öryggis­gæslu við skóla

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara.
Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara. vísir/einar

Formaður félags grunnskólakennara kallar eftir því að stjórnvöld skoði að ráðast í öryggisgæslu við grunnskóla eftir árás sem beindist gegn tveimur kennurum í vikunni. Hún segir þó nokkra kennara óttast um öryggi sitt í starfi.

Greint var frá því á föstudag að tveir kennarar við Ingunnarskóla í Grafarholti í Reykjavík hafi orðið fyrir árás nemenda á miðstigi á jólaskemmtun í íþróttahúsi skólans. Í tölvupósti skólastjórnenda til foreldra kemur fram að brugðist hafi verið samkvæmt ferlum skólans. Skólinn harmar það að nemendur hafi orðið vitni að atvikinu en þeim var boðið að ræða við námsráðgjafa.

Sambærilegt mál kom upp í október þegar skólastjóri í grunnskóla sagði nemendur ganga ítrekað í skrokk á kennurum.

Mjöll Matthíasdóttir, formaður Félags grunnskólakennara, segir ofbeldi í garð kennara færast í aukana. Hún tekur fram að þó nokkrir kennarar óttist um öryggi sitt.

„Því miður virðist það vera svoleiðis að þetta er að verða algengara. Það er náttúrulega bara mjög alvarlegt ástand að þetta sé með þessum hætti og þegar að börn eiga í hlut þurfa náttúrulega bara úrræði ef við vanda er að stríða. Það er það sem að vantar inn í skólana okkar. Okkur vantar meiri úrræði og meiri hjálp.“

Hún segir tímabært að gripið verði til aðgerða vegna þessa.

„Maður veltir fyrir sér hvort við séum komin á þann stað að það þurfi að huga að aðgengismálum skóla. Ekkert landanna í kringum okkur er með skólana sína galopna þannig að hver sem er getur labbað þar inn og komist í kennslustofu.“

Er ástandið orðið svo alvarlegt að við þurfum að skoða öryggisráðstafanir eða gæslu við skóla?

„Já það hlýtur að vera komið að því ef maður veltir því fyrir sér. Það eru bara sveitarfélögin og rekstraraðilar skóla sem þurfa að fara í skoðun og greiningu á því hvernig það eigi að koma þessu fyrir.“

Hún telur um félagslegt vandamál að ræða og að ekki sé hægt að benda á eitthvað eitt sem orsök þessarar þróunar. Mikilvægt sé að brýna fyrir börnum að koma fram við kennara af virðingu.

„Við þurfum náttúrulega bara sem samfélag að fara í naflaskoðun. Að bregðast við með ofbeldi virðist vera einhver algengari lausn en það var og við þurfum að hugsa okkar gang. Foreldrar og uppalendur, kennarar og þeir sem reka skólana. Hvernig mætum við þessum vanda?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×