Innlent

Stýra fjár­málum og mann­auðsmálum Þjóð­leik­hússins

Atli Ísleifsson skrifar
Eyjólfur Gíslason og Þóra Gréta Þórisdóttir.
Eyjólfur Gíslason og Þóra Gréta Þórisdóttir.

Þóra Gréta Þórisdóttir hefur verið ráðin í nýja stöðu framkvæmdastjóra fjármála og rekstrar hjá Þjóðleikhúsinu og Eyjólfur Gíslason í stöðu mannauðsstjóra. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá leikhúsinu. Þar segir ráðið sé í stöðurnar í kjölfar skipulagsbreytinga sem hugsaðar séu til að efla leikhúsið og sækja fram en á dögunum hafi verið samþykkt lög frá Alþingi um að ný ópera hæfi starfsemi innan veggja Þjóðleikhússins. Þá hafi einnig verið tilkynnt um nýbyggingu með nýju sviði. 

„Skipulagsbreytingarnar gera leikhúsið betur í stakk búið til að mæta þessum spennandi verkefnum og auka skilvirkni.

Þóra Gréta Þórisdóttir var ráðin í nýja stöðu framkvæmdastjóra fjármála og rekstrar í nóvember 2025. Hún hefur yfirgripsmikla reynslu af stjórnun og fjármálastjórn. Hún var nú síðast framkvæmdastjóri fjármála hjá Nóa Síríus og þar á undan í mörg ár hjá Coca-Cola Europacific Partners, bæði í Svíþjóð og á Íslandi. Hún situr líka í stjórn RARIK og Samhjálpar. Þóra lauk meistaranámi í stefnumiðaðri stjórnun við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og lærði auk þess verðbréfaviðskipti.

Eyjólfur Gíslason er nýr mannauðsstjóri Þjóðleikhússins og kemur með verðmæta reynslu að leikhúsinu. Síðastliðin ár hefur hann verið deildarstjóri á flugrekstrarsviði hjá Icelandair þar sem mannauðsmál voru stór hluti af starfi deildarinnar. Hann lauk meistaraprófi í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst með áherslu á mannauðsstjórnun. Einnig hefur hann starfað sem fjölmiðlafulltrúi, ráðgjafi og fyrirlesari.

Þóra hefur þegar hafið störf en Eyjólfur mun bætast í hópinn fljótlega á nýju ári,“ segir í tilkynnunni. 

Í tilkynningunni segir að starfsfólk hlakki líka til að taka vel á móti nýjum óperustjóra og að gert sé ráð fyrir því að skipað verði í stöðuna innan skamms.


Tengdar fréttir

Ráðherra tekur sjálfur viðtöl

Jóhann Páll Jóhannsson settur menningarráðherra þegar kemur að ráðningu nýs óperustjóra hefur boðað þrjá umsækjendur í viðtal. Þrír hafa verið metnir hæfir til að gegna stöðunni en til stóð að skipa í stöðuna fyrir 15. nóvember síðastliðinn.

Þrír metnir hæfir til að stýra Óperunni

Hæfnisnefnd hefur metið þrjá hæfa í hlutverk óperustjóra við Nýja þjóðaróperu. Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hefur lýst sig vanhæfan í málinu og mun Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra taka ákvörðunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×