Handbolti

Arnar Daði rekinn frá Stjörnunni en á­fram þjálfari kvenna­liðsins

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Daði Arnarsson og Hrannar Guðmundsson fóru með Stjörnuna í úrslitaleik Powerade-bikarsins á síðustu leiktíð.
Arnar Daði Arnarsson og Hrannar Guðmundsson fóru með Stjörnuna í úrslitaleik Powerade-bikarsins á síðustu leiktíð. vísir/Vilhelm

Arnar Daði Arnarsson fékk heldur kaldar jólakveðjur frá handknattleiksdeild Stjörnunnar í hádeginu í dag þegar honum var tilkynnt að hann yrði að stíga til hliðar sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla. Hann er þó áfram þjálfari meistaraflokks kvenna og yngri flokka en ætlar að skoða sín mál yfir jólin

Karlalið Stjörnunnar, sem Arnar Daði aðstoðaði Hrannar Guðmundsson til að mynda við að koma í bikarúrslitaleikinn á síðustu leiktíð, er í 8. sæti Olís-deildarinnar nú þegar jóla- og EM-hléið er hafið. Liðið er aðeins með tíu stig eftir fimmtán leiki, sex stigum á eftir næsta liði sem er Fram.

Það vekur hins vegar athygli að í þessu tilviki var aðstoðarþjálfarinn látinn fara sem þó virðist áfram treyst til að þjálfa kvennalið Stjörnunnar, en Arnar Daði og Hanna G. Stefánsdóttir tóku við því í byrjun nóvember.

„Það síðasta sem ég bjóst við þegar ég mætti á þennan fund“

Arnar Daði kveðst hins vegar virða ákvörðun stjórnarinnar og viðurkennir að gengi karlaliðsins hafi ekki verið nægilega gott.

„Ég fékk skilaboð frá formanninum [Sigurjón Hafþórsson] í gærkvöldi um hvort ég gæt hitt hann á fundi í hádeginu. Þar var mér tjáð af formanninum og tveimur aðilum innan félagsins sem ég hafði aldrei hitt áður að það væri virkilega mikil ánægja með mín störf innan Stjörnunnar bæði hvað varðar yngri flokka þjálfun og eftir að ég kom inn sem nýr aðstoðarþjálfari kvennaliðsins í síðasta mánuði. En nú þyrfti hinsvegar að hrista upp í hlutunum hjá karla liðinu og það væri ákvörðun einhverra innan stjórnarinnar að ég myndi stíga til hliðar sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla,“ segir Arnar Daði í samtali við Vísi.

Stjörnumenn hafa átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni og eru í 8. sæti Olís-deildarinnar.vísir/Anton

„Þetta var það síðasta sem ég bjóst við þegar ég mætti á þennan fund og auðvitað kom þetta flatt upp á mann. Það er ekki á hverjum degi sem aðstoðarþjálfara er sagt upp störfum.

Það hafa auðvitað margar spurningar vaknað í dag eftir samtöl mín við góða aðila innan hreyfingarinnar en á meðan ég er enn í starfi hjá Stjörnunni þá held ég að fæst orð beri minnstu ábyrgð,“ segir Arnar Daði og bætir við:

„Á sama tíma og manni er sagt upp hjá karla liðinu þá er maður talinn vera sá aðili sem á að hjálpa til í kvennaliðinu ásamt Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur. Þetta er áhugavert.“

„Kómískt að sami einstaklingurinn sé vandamálið karlamegin en eigi að vera lausnin kvennamegin“

Aðspurður hvort hann hyggist áfram starfa fyrir Stjörnuna segist Arnar vilja taka sér tíma í það um jólin að meta framhaldið.

„Ég gekk útaf fundinum í dag sem aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar og yngri flokka þjálfari Stjörnunnar en starfskrafta minna var ekki óskað hjá meistaraflokki karla. Ætli ég heyri ekki í Aroni Jóhannssyni hjá Val og spyrji hvort við ættum að stofna einhvern klúbb aðila sem eru á samningi hjá félögum án þess að þurfa að mæta,“ segir Arnar Daði léttur en óviss um framhaldið. Hann kveðst þó hafa liðið afar vel hjá Stjörnunni síðan hann kom til félagsins í fyrra, og sá ekki annað fyrir sér en að vinna áfram að því að koma karlaliðinu á réttan kjöl ásamt því að halda áfram sama verkefni með kvennaliðið.

„Nú er hinsvegar staðan orðin önnur og ég ætla nýta hátíðirnar til að ákveða framhaldið hjá mér. Það er auðvitað kómískt að sami einstaklingurinn sé vandamálið karlamegin en eigi að vera lausnin kvennamegin hjá sama félaginu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×