Fótbolti

Ruglaðar lokamínútur í Afríkukeppninni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tapsoba var hetjan á ótrúlegum lokamínútum.
Tapsoba var hetjan á ótrúlegum lokamínútum. Visionhaus/Getty Images

Búrkína Fasó vann hreint ótrúlegan 2-1 sigur á Miðbaugs-Gíneu í fyrsta leik dagsins í Afríkukeppninni í fótbolta í Marokkó.

Leikur liðanna var býsna tíðindalítill framan af en gíneska liðið varð fyrir áfalli þegar Basilo Ndong, leikmanni Tirana í Albaníu, var vísað af velli snemma í síðari hálfleik.

Mörkin létu á sér standa allt þar til á 85. mínútu þegar varnarmaðurinn Marvin Anieboh kom tíu leikmönnum Miðbaugs-Gíneu yfir og allt stefndi í sterkan sigur manni færri.

Georgi Minoungou jafnaði hins vegar á fimmtu mínútu uppbótartíma eftir stoðsendingu frá Dango Outtara, leikmanni Bournemouth á Englandi, við mikinn fögnuð Búrkína.

Búrkínar létu þó ekki þar við sitja þar sem Edmond Tapsoba, varnarmaður Leverkusen í Þýskalandi, skoraði það sem reyndist sigurmarkið á áttundu mínútu uppbótartíma og gríðarleg fagnaðarlæti brutust út.

Búrkína Fasó hefur mótið því á sigri en Miðbaugs-Gíneu menn sitja eftir með sárt ennið. Alsír og Súdan mætast í sama riðli klukkan 15:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×