Erlent

Röð stunguárása í neðan­jarðar­lestinni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Maðurinn gekk berserksgang í neðanjarðarlestakerfi Parísarborgar.
Maðurinn gekk berserksgang í neðanjarðarlestakerfi Parísarborgar. Getty

Maður á þrítugsaldri stakk og særði þrjár konur á þremur ólíkum neðanjarðarlestarstöðvum á sömu leið í París síðdegis í dag. Lögregla hafði hendur í hári hans á heimili sínu þangað sem hann hafði flúið. Hvati mannsins til árásanna er ekki ljós en talið er að hann hafi glímt við geðræn veikindi.

Samkvæmt umfjöllun Le Parisien mundaði árásarmaðurinn hníf um borð í neðanjarðarlest og stakk konu. Svo fór hann út á tiltekinni stöð þar sem hann stakk aðra konu og flúði af vettvangi í neðanjarðarlest. Á þriðju stöðinni stakk hann enn aðra konu og flúði svo um borð í enn annarri neðanjarðarlest.

Lögregla komst á snoðir um niðurkomu mannsins með því að fylgjast með ferðum hans í gegnum öryggismyndavélar. Maðurinn var góðkunnugur lögreglunni í París og hafði auk smáglæpa einnig dvalið í Frakklandi umfram útgefið dvalarleyfi. Lögregla gengur út frá því að maðurinn hafi glímt við alvarleg geðræn veikindi og telur ekki að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Fórnarlömb mannsins hlutu öll minniháttar sár. Tvær þeirra voru stungnar annars vegar í bakið og hins vegar lærið, sú síðarnefnda var sömuleiðis ólétt.

„Það var samt mikið blóð. Þetta voru frekar djúpir skurðir,“ hefur miðillinn franski eftir sjónarvotti.

Lögreglan tók árásarmanninn fastan á heimili sínu í úthverfi Parísar um tveimur tímum eftir árásirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×