Erlent

Níu hand­teknir fyrir að safna pening fyrir Hamas

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Lögreglan á Ítalíu handtók níu.
Lögreglan á Ítalíu handtók níu. AP

Níu hafa verið handteknir í Ítalíu fyrir að safna rúmlega milljarði íslenskra króna fyrir Hamas-samtökin á Gasa. Fjármununum var safnað undir því yfirskyni að þeir myndu renna til mannúðaraðstoðar í Palestínu.

Einstaklingarnir voru handteknir grunaðir um að hafa „sakaðir um að hafa staðið fyrir fjármögnunaraðgerðum sem taldar eru hafa stuðlað að hryðjuverkastarfsemi“.

Í frétt BBC um málið segir að lögreglan hafi einnig lagt hald á eignir að andvirði 1,1 milljarðs íslenskra króna við rannsókn á málinu. Rannsóknin hófst eftir árás Hamas á Ísrael þann 7. október 2023 og var bæði á borði ítölsku lögreglunnar gegn hryðjuverkum og efnahagsbrotadeildarinnar.

„Hinir grunuðu söfnuðu framlögum sem voru ætluð almennum borgurum á Gasa, en í ljós kom að yfir 71 prósent þessara fjármuna var veitt í sjóði Hamas til að fjármagna hernaðarvæng samtakanna og styðja við fjölskyldur sjálfsmorðssprengjumanna eða þeirra sem voru í haldi fyrir hryðjuverk,“ segir í yfirlýsingu frá lögreglunni.

Lögreglan segist hafa lagst í greiningarvinnu á kerfi fjáröflunar, sem hafði höfuðstöðvar í Genóa og útibú í Mílanó. Mohammad Hannoun, forseti Palestínusamtakanna á Ítalíu, var meðal þeirra sem voru handteknir. Hann hefur áður verið sakaður um að styrkja Hamas en sagði ásakanirnar vera lygi. Samkvæmt ITV er Hannoun sagður vera höfuðpaur ítalska hluta Hamas. 

Hamas-samtökin hafa verið skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Evrópusambandinu og öðrum ríkjum líkt og Bretlandi, Japan og Bandaríkjunum.

Átök milli Ísraels og Hamas hófust þann 7. október 2023 með árás Hamas á Ísrael. Ísrael svaraði grimmilega en vopnahlé náðist loks í október 2025. Þrátt fyrir að vopnahlé sé í gildi eru enn gerðar mannskæðar árásir nær daglega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×