Erlent

Mesti snjór í New York í fjögur ár

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Þessir hafa sjálfsagt skemmt sér vel í snjónum.
Þessir hafa sjálfsagt skemmt sér vel í snjónum. Getty

Íbúar í New York vöknuðu í gær við mesta snjó sem fallið hefur í borginni í fjögur ár, eftir að vetrarstormur reið yfir hluta af norðausturhluta Bandaríkjanna. Snjódýptin náði um 11 sentímetrum í Central Park, og setti snjókoman samgöngur, þar á meðal flugsamgöngur, í töluvert uppnám.

Yathy Hochul, ríkisstjórinn í New York, lýsti yfir neyðarástandi í rúmlega helmingi ríkisins áður en stormurinn skall á.

Samkvæmt umfjöllun BBC var snjódýptin um 19 sentímetrar þar sem hún var mest í ríkinu.

Rúmlega 900 flugferðum var aflýst á svæðinu í gær, og rúmlega átta þúsund flugferðum var frestað töluvert eða lentu í töfum vegna færðar.

Snemma laugardagsmorgun var stormurinn genginn yfir að mestu leyti en hiti er undir frostmarki og er færð á vegum því víða vafasöm.

Var meðal annars gripið til ráðstafana til að koma heimilislausu fólki í New York í húsaskjól meðan stormurinn reið yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×