Skoðun

Kolefnissporið mitt

Jón Fannar Árnason skrifar

Ég sit á hótelherbergi í Nuuk og hugsa um kolefnissporið mitt á árinu sem er að líða og vil koma á framfæri afsökunarbeiðni vegna þess.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að tíu utanlandsferðir á tólf mánuðum telst ekki hófstillt hegðun á tímum loftslagsváar. Þetta er vissulega ekki fallegt í Excel-skjali framtíðarinnar og ég skil að jörðin hefði kosið að ég sæti aðeins oftar heima á bumbunni að horfa á sjónvarpið.

Ferðirnar voru þó allar mikilvægar á sinn hátt. Ein þeirra var vinnuferð (góð fyrir samfélagið), sumar voru nauðsynlegar (til að komast í sól og hita) fyrir andlega heilsu og restin voru einfaldlega ferðir sem ég gat sleppt, enda er lífið stutt.

Ég geri mér grein fyrir því að hvert flug losar meira CO₂ en samviskan mín ræður við á góðum degi. En ég vil líka benda á að ég hef ekki keypt stóran jeppa, ég á ekki snekkju og ég hef aldrei einu sinni íhugað einkaþotu. Í stóra samhenginu er ég því samfélagsþegn sem er til fyrirmyndar.

Til að vega upp á móti þessu hef ég tekið upp ýmsar vistvænar venjur. Ég flokka rusl af mikilli nákvæmni, jafnvel þegar enginn sér til og borða stundum grænmetisrétti. Ég nota fjölnota vatnsbrúsa og fylli hann reglulega, nema á flugvöllum þar sem vatnið er óþægilega langt í burtu.

Að lokum vil ég taka fram að ég ber djúpa virðingu fyrir jörðinni og framtíð hennar. Ég vona bara að hún geti sýnt mér sömu þolinmæði og ég sýni sjálfum mér þegar ég bóka enn eitt flugið, sannfærður um að þetta verði örugglega síðasta ferðin í bili.

Höfundur er tómstunda- og félagsmálafræðingur sem er mikill ferðalangur.




Skoðun

Sjá meira


×