Innlent

Hér verða áramótabrennur á Gaml­árs­dag 2025

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Áramótabrennur fara fram víða um land á Gamlársdag.
Áramótabrennur fara fram víða um land á Gamlársdag. Vísir/Vilhelm

Áramótin nálgast óðfluga og halda mörg sveitarfélög í þá hefð að hlaða í áramótabrennur. Vísir tók saman lista með helstu áramótabrennum landsins, listinn er ekki tæmandi og tekur fréttastofa fagnandi ábendingum um brennur sem ekki eru á lista.

Í tilkynningu frá borginni segir að brennur séu ýmist á hendi sveitafélaga eða félagasamtaka. Tekinn er fram fyrirvari um að brennur fari fram ef veður leyfir. Tíu brennur verða í borginni, engar í Kópavogi og Hafnarfirði. Tvær áramótabrennur verða í Garðabæ, önnur við Sjávargrund og hin á Álftanesi. Kveikt verður í brennu við Álftanes klukkan 20:30 en við Sjávargrund klukkan 21:00. 

Í Mosfellsbæ verður áramótabrenna neðan Holtahverfis við Leirvoginn klukkan 16:30. Á Seltjarnarnesi fer fram brenna á Valhúsahæð klukkan 20:30.

Sveitarfélagið Árborg heldur þrennar áramótabrennur. Eina klukkan 17:00 á Selfossi við Brennustæðið í Gesthúsum. Flugeldasýning fer fram frá Stóra Hól klukkan 17:15. Á Stokkseyri verður brenna klukkan 17:00 Austan við Hraunsá, vestan við Kaðlastaði. Brenna á Eyrarbakka fer fram klukkan 20:00 vestan við Hafnarbrú, norðan við tjaldstæði.

Á Akureyri fer fram brenna á sama stað og áður á auðu svæði nokkru sunnan við golfskálann á Jaðri. Brennan fer fram klukkan 20:30 og fer árleg flugeldasýning fram á klöppunum norðan Pálmholts og hefst hún um klukkan 21:00.

Hlaðið í bálköst á Geirsnefi.Vísir/Vilhelm

Áramótabrennur í Ísafjarðarbæ fara fram á fimm stöðum klukkan 20:30. Við smábátahöfnina á Flateyri, á Árvöllum í Hnífsdal, á Hauganesi á Ísafirði, á Hlaðnesi fyrir innan lónið á Suðureyri og við víkingasvæðið á Þingeyrarodda.

Á Austurlandi verður fjöldi áramótabrenna, meðal annars í Fjarðabyggð. Á Reyðarfirði verður brenna við Hrúteyri klukkan 17:00, á Eskifirði á malarsvæði móts við þorpið klukkan 17:00, á Norðfirði utan við flugvöllinn klukkan 17:00, á Fáskrúðsfirði við Sævarenda/Fjöruborð klukkan 17:00 og á Breiðdalsvík á malarsvæði sunnan við gámavöll klukkan 17:00. Á Stöðvarfirði fer fram áramótabrenna klukkan 20:30 á Melseyri ofan Birgisnes.

Í Múlaþingi verða áramótabrennur og flugeldasýningar víða. Á Egilsstöðum hefst dagskrá klukkan 16:30 og áramótabrenna á Egilsstaðanesi. Flugeldasýning verður þar klukkan 17:15. Á Seyðisfirði hefst áramótabrenna og flugeldasýning í Langatanga klukkan 17:00 og á sama tíma í Djúpavogi á Hermannastekkum og flugeldasýning korteri síðar. Á Borgarfirði fer fram áramótabrenna við norðurenda flugbrautar klukkan 20:30 og mun heimafólk skjóta upp flugeldum.

Búast við svifryksmengun í Reykjavík

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg um áramótabrennur ársins kemur fram að nokkrar líkur séu á svifryksmengun fyrstu klukkustundir ársins 2026 vegna mengunar frá flugeldum. Búist sé við því að styrkurinn verði yfir heilsuverndarmörkum og er tekið fram í tilkynningu borgarinnar að flugeldum fylgi líka rusl sem þurfi að koma á réttan stað.

„Reykjavíkurborg ætlar að bjóða upp á gáma fyrir flugeldarusl á tíu grenndarstöðvum um alla borg. Alls verða haldnar tíu áramótabrennur í Reykjavík á gamlárskvöld. Götulokanir verða á Skólavörðuholti og nágrenni á gamlárskvöld ásamt því að aðgengi akandi við brennur verður skert.“

Svifryksmengun vegna flugelda sé bæði varasöm og heilsuspillandi. Fólk með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma og börn séu sérstaklega viðkvæm fyrir svifryki. Æskilegast sé fyrir þennan hóp að vera innandyra þegar mest gengur á í kringum um miðnættið og loka gluggum. Bent er á í tilkynningu borgarinnar að loftgæðamælistöðvar sem mæli svifrik í borginni séu staðsettar við Grensásveg, Olís Álfabakka, í Laugarnesi og Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Hægt sé að fylgjast með styrk á Loftgæði.is.

„Alls verða haldnar tíu áramótabrennur í Reykjavík á gamlárskvöld. Umsjón með þeim er ýmist á hendi borgarinnar eða félagasamtaka, sem huga vel að því sem sett er á brennurnar og tryggja að frágangur og vöktun sé í lagi. Fyrir hádegi á gamlársdag er veðurspá skoðuð og ákvörðun tekin um hvort það megi tendra um kvöldið. Brennur eru ekki tendraðar ef vindhraði fer yfir 10 m/s.“

  • Við Ægisíðu, lítil brenna, klukkan 20:30.
  • Í Skerjafirði gegnt Skildinganesi 48-52, lítil brenna, klukkan 20:30.
  • Við Suðurhlíðar, neðan við Fossvogskirkjugarð, lítil brenna, kl. 20:30.
  • Laugardalur, fyrir neðan Laugarásveg 18, lítil brenna, klukkan 20:30.
  • Geirsnef, á norðanverðu Geirsnefi, stór brenna, klukkan 20:30.
  • Við Stekkjarbakka, lítil brenna, klukkan 20:30.
  • Við Rauðavatn að norðanverðu, lítil brenna, klukkan 20:30.
  • Gufunes við Gufunesbæ, stór brenna, klukkan 20:30.
  • Við Kléberg á Kjalarnesi, lítil brenna, klukkan 20:30.
  • Úlfarsfell á athafnasvæði Fisfélagsins ofan við Lambhagaveg, lítil brenna klukkan 20:30.

Mælt er með fólk komi gangandi að brennum sem verða en skert aðgengi er fyrir akandi að brennunum.

  • Við brennuna við Ægisíðu verður Ægisíðan á milli Forhaga og Sörlaskjóls/Hofsvallagötu lokuð fyrir akandi umferð á meðan á brennunni stendur.
  • Við brennuna á Geirsnefi verður ekki hægt að aka inn á Geirsnefið frá Bílshöfðanum. Bílastæði eru í boði við Hitt húsið á Rafstöðvarvegi og við Endurvinnsluna í Knarrarvogi.
  • Við Rauðavatn er óskað eftir að fólk nýti undirgöng undir Vesturlandsveginn í stað þess að fara yfir hann.
  • Í Skerjafirði er akandi vegfarendum bent á að aka Einarsnesið og leggja bílum við gömlu Shell stöðina við Skeljanes í staðinn fyrir að aka í gegnum hverfið.

Götulokanir

Skólavörðuholt verður lokað fyrir akandi umferð frá klukkan 22:00, 31. desember til klukkan 01:00 á nýársnótt, (1. janúar). Þá verða lokanir á nokkrum götum á gamlársdag vegna Gamlárshlaups ÍR.

Öllum aðliggjandi götum að Skólavörðustíg verður lokað fyrir akandi vegfarendum frá klukkan 16:00 þann 30. desember. Göturnar sem um ræðir eru Kárastígur, Bjarnarstígur, Baldursgata, Týsgata, Óðinsgata og Vegamótastígur. Hægt verður að keyra um Skólavörðustíg til klukkan 22:00 á Gamlársdag. Opnað verður fyrir umferð að nýju 2. janúar.

Þá er bent á staðsetningar grenndargáma í tilkynningu borgarinnar:

Staðsetningarnar eru eftirfarandi:

  • Vesturbær – grenndarstöð við Hofsvallagötu (Vesturbæjarlaug)
  • Miðborg - grenndarstöð Eiríksgötu (við Hallgrímskirkju)
  • Hlíðar - grenndarstöð við Flókagötu (Kjarvalstaði)
  • Laugardalur - grenndarstöð við Sundlaugaveg (Laugardalslaug)
  • Háaleiti-Bústaðir - grenndarstöð við Sogaveg
  • Breiðholt – grenndarstöð við Austurberg
  • Árbær/Selás – grenndarstöð við Selásbraut
  • Grafarvogur – grenndarstöð í Spöng
  • Grafarholt-Úlfarsárdalur – grenndarstöð Þjóðhildarstíg (við Krónuna)
  • Kjalarnes – við grenndarstöð

Veist þú um áramótabrennu sem ekki er á lista Vísis? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×