Skoðun

Mark­miðin sem skipta máli

Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar

Áramótin eru að mínu mati einn besti tími ársins. Nýtt upphaf, tækifæri til að fara yfir markmiðin sín og gildi og leggja grunninn að nýjum sigrum á nýju ári. Það sem skiptir mig mestu máli í lífinu er að skapa aðstæður fyrir börnin mín þrjú til að blómstra og ná árangri. Að þau takist á við krefjandi verkefni í öruggu umhverfi þar sem þau fá að finna til sín og vaxa. Ég vil að þau tileinki sér góð samskipti, séu virk félagslega og að þau geri sér grein fyrir því að þau eru hluti af samfélagi sem þarf að rækta og hlúa að. Ég vil að þau búi við góða heilsu, stundi fjölbreyttar íþróttir og útiveru. Að þau rækti heilbrigða sál í hraustum líkama.

Ég er meðvitaður um að ég sem foreldri er mikilvægasti aðilinn í lífi barnanna minna til að stuðla að jákvæðum þroska þeirra en ég er líka meðvitaður um að ég hef ekki fulla stjórn á aðstæðum. Til þess að ég nái markmiðum mínum þarf ég að eiga í góðu samstarfi við kennara, þjálfara, frístundastarfsfólk og foreldra vina barnanna minna. Við erum öll saman í því verkefni að ala upp börnin mín og skapa þeim góða framtíð.

Ég hef líka þurft að reiða mig á öflugt heilbrigðiskerfi, lækna, talmeinafræðinga, sálfræðinga og geðlækna til að styðja við börnin mín. Þar kynntist ég annars vegar mikilvægi þess að hafa öflugt og aðgengilegt heilbrigðiskerfi en á sama tíma hvað biðlistar eftir greiningum og þjónustu eru allt of langir.

Markmið mitt fyrir nýtt ár er að halda áfram að hlúa að börnunum mínum. Ég ætla að forgangsraða tíma mínum betur til að verja tíma með þeim því ég veit að samvera barna með foreldrum er það sem hefur mest jákvæð áhrif á líðan og þroska barnanna okkar. Ég ætla að ýta undir að þau rækti félagsleg tengsl og taki virkan þátt í samfélaginu okkar. Ég ætla að halda áfram að styðja þau í að taka þátt í íþróttastarfi og útiveru. Síðast en ekki síst ætla ég að vera til staðar þegar fjölbreyttar áskoranir lífsins banka upp á.

Ég ætla einnig að nýta krafta mína á Alþingi Íslendinga til að stuðla að jákvæðu og sterku samfélagi fyrir börnin mín og öll önnur börn á Íslandi til að alast upp, vaxa og þroskast. Á fyrsta ári mínu á þingi hef ég þegar stutt ríkisstjórn Íslands meðal annars við að:

Efla fæðingarorlofskerfið og tryggja að allir foreldrar fái aukin réttindi óháð fæðingardegi barns

Efla grunnskólakerfið með því að lögfesta nýjan samræmdan matsferil sem mun styðja við foreldra og skólakerfið til að fylgjast með og stuðla að bættum námsárangri barna

Auka fjármagn til geðheilsumiðstöðvar barna til að fjölga stöðugildum í greiningarteymum og stytta biðlista eftir greiningu

Ríkið taki yfir málaflokk barna með fjölþættan vanda til að bæta þjónustu og veita sveitarfélögunum aukið svigrúm til að fjárfesta í skólunum, félagsmiðstöðvum og íþróttastarfi

Ráðast í markvisst átak við að efla meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni en nýtt meðferðarheimili fyrir drengi mun opna strax í janúar og standa endurbætur á Stuðlum yfir samhliða

Tvöfalda framlög til æskulýðssjóðs í fjárlögum næsta árs en sjóðurinn hefur það markmið að styðja börn og ungmenni við að skipuleggja og taka þátt í tómstunda- og forvarnarstarfi.

Næstum tvöfalda framlög til ferðasjóðs ÍSÍ en markmið þess sjóðs er að niðurgreiða ferðakostnað barna í keppnisferðalögum innanlands og þannig stuðlað að jafnara aðgengi barna að íþróttastarfi

Ríkisstjórnin hefur einnig verið meðvituð um mikilvægi þess að styðja við foreldra og hversu mikil áhrif fátækt foreldra hefur á lífsgæði barna. Því hefur það verið forgangsmál ríkisstjórnarinnar að styðja betur við þau sem standa verst í samfélaginu. Mennta- og barnamálaráðherra hefur sett af stað vinnu við fyrstu aðgerðaáætlun Íslands gegn fátækt barna en 10% barna búa við fátækt á Íslandi.

Á nýju ári mun ég halda áfram að styðja við ríkisstjórnina í fjölmörgum góðum málum sem snúa að því markmiði að bæta líf barna og ungmenna á Íslandi. Spenntastur er ég sjálfur fyrir gerð fyrstu ungmennastefnu Íslands en ég hef tekið að mér að leiða þá vinnu fyrir hönd mennta- og barnamálaráðherra. Markmiðið með fyrstu ungmennastefnu Íslands er að taka saman heildstæða stefnu um hvernig við sem samfélag viljum skapa aðstæður og styðja við börnin okkar þegar þau verða unglingar og þangað til að þau verða öflugir fullorðnir einstaklingar sem standa á eigin fótum, taka þátt í að byggja upp samfélagið okkar og ala upp næstu kynslóðir.

Ég óska öllum landsmönnum gleðilegs nýs árs og vil hvetja ykkur til að setja ykkur markmið sem skipta máli, markmið sem snúa að því hvernig við getum bæði eflt okkur sem einstaklinga en líka hvernig við getum látið gott af okkur leiða til að byggja saman upp sterkt og öflugt samfélag á Íslandi.

Höfunduer er þingsflokksformaður Samfylkingarinnar og foreldri




Skoðun

Sjá meira


×