Handbolti

„Feginn að þú lifðir krabba­meinið af svo þú gætir séð skítaliðið þitt fara niður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Berge tók við Kolstad 2022. Liðið hefur þrisvar sinnum orðið norskur meistari og þrisvar sinnum bikarmeistari undir hans stjórn.
Christian Berge tók við Kolstad 2022. Liðið hefur þrisvar sinnum orðið norskur meistari og þrisvar sinnum bikarmeistari undir hans stjórn. getty/Igor Kralj

Christian Berge, þjálfara Kolstad, bárust ógeðfelld skilaboð eftir tap Íslendingaliðsins fyrir Runar í bikarúrslitaleiknum í Noregi.

Sigvaldi Guðjónsson skoraði fjögur mörk í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn. Staðan eftir venjulegan leiktíma var jöfn, 29-29, og úrslitin réðust í vítakastskeppni. Þar hafði Runar betur, 4-5, og vann sinn fyrsta bikarmeistaratitil í sextán ár.

Eftir leikinn sendi óvandaður einstaklingur, sem kallaði sig Morten, Berge eftirfarandi skilaboð: „Feginn að þú lifðir krabbameinið af svo þú gætir séð skítaliðið þitt fara niður.“

Með skilaboðunum fylgdi hlæjandi broskall. Morten baðst svo afsökunar á innsláttarvillu í fyrri skilaboðunum en virtist annars ekki sjá neitt athugavert við þau. 

Berge greindist með eitilfrumukrabbamein fyrir rúmum tuttugu árum en sneri aftur á völlinn eftir meðferðir og hefur síðan gert það gott í þjálfun síðan skórnir fóru á hilluna.

Berge, sem leiddi norska karlalandsliðið til þrennra verðlauna á stórmótum, birti skilaboðin frá Morten á Facebook. 

„Þú hittir í mark. Það var sárt,“ skrifaði Berge meðal annars. Hann sagðist venjulega hunsa skilaboð af þessum toga en Morten hefði farið svo langt yfir strikið að ekki væri annað hægt en að veita þessu athygli.

Berge sagði jafnframt að árið hefði verið erfitt. Hann hneig niður í seinni úrslitaleiknum um norska meistaratitilinn í vor en þjálfarinn er með gáttatif sem lýsir sér í óreglulegum og hröðum hjartslætti. Berge fór í kjölfarið í veikindaleyfi.

Á ýmsu hefur gengið utan vallar hjá Kolstad en félagið á í verulegum fjárhagskröggum og hefur boðað niðurskurð.

Auk Sigvalda leika Benedikt Gunnar Óskarsson og Sigurjón Guðmundsson með Kolstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×