Erlent

Óttast að um fjöru­tíu hafi látist á skemmti­staðnum

Atli Ísleifsson skrifar
Sprengingin varð í kjallara skemmtistaðarins þar sem tónleikar fóru fram. Lögregla og aðrir viðbragðsaðilar hafa verið með mikinn viðbúnað á staðnum í nótt og í morgun.
Sprengingin varð í kjallara skemmtistaðarins þar sem tónleikar fóru fram. Lögregla og aðrir viðbragðsaðilar hafa verið með mikinn viðbúnað á staðnum í nótt og í morgun. EPA

Lögregla í Sviss óttast að um fjörutíu manns hafi farist í sprengingunni sem varð í kjallara skemmtistaðar í skíðabænum Crans Montana í svissnesku Ölpunum í nótt.

Frá þessu greina erlendir fjölmiðlar og vísa í yfirlýsingu frá ítalska utanríkisráðuneytinu. Lögregla í Sviss stóð fyrir fréttamannafundi í morgun þar sem talað var um að „tugir“ væru látnir og um hundrað slasaðir, flestir alvarlega, án þess þó að fara nánar í fjöldann.

Stjórnvöld í kantónunni Valais hafa lýst yfir neyðarástandi til að greiða fyrir samhæfingu viðbragðsaðila. Talið er að vikur gætu liðið þar til að búið verði að bera kennsl á öll líkin.

Myndir af skemmtistaðnum frá svissnesku lögreglunni.AP

Tilkynningin um sprenginguna og mikinn eld kom um klukkan hálf tvö í nótt að staðartíma þar sem nýársfögnuður stóð yfir á skemmtistaðnum. Grunur er um að flugeldar sem notaðir voru í tengslum við tónleika á staðnum hafi valdið sprengingunni, en lögregla hefur gefið út að málið sé ekki rannsakað sem hryðjuverk.

Frestaði nýársávarpi sínu

Guy Parmelin, forseti Sviss, frestaði nýársávarpi sínum vegna sprengingarinnar og sagði hann að það hafi verið gert af virðingu við hina látnu og aðstandendur.

„Það sem hefði átt að vera augnablik gleði varð með atburðunum í Crans Montana að sorg sem snertir allt Sviss og útlönd,“ segir í færslu sem forsetinn birti á samfélagsmiðlum.

AP

Erlendir ferðamenn í hópi látinna

Mikill viðbúnaður var við skemmtistaðinn Le Constellation Bar and Lounge í nótt og í morgun og var notast við þyrlur til að flytja slasaða á sjúkrahús.

Lögregla segir að í hópi látinna og slasaðra séu erlendir ferðamenn, en enn hefur ekki verið gefið upp um þjóðerni þeirra og fjölda. Unnið er að því að bera kennsl á slasaða og látna.

Crans Montana er vinsæll skíðabær í um 1.500 metra hæð yfir sjávarmáli, um 145 kílómetra austur af Genf


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×