Innlent

Sumar­bú­staða­eig­endur geti skotið upp flug­eldum annars staðar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gunnar hvetur sumarbústaðaeigendur til að fara annað með flugelda.
Gunnar hvetur sumarbústaðaeigendur til að fara annað með flugelda.

Bóndi í Grímsnes- og Grafningshreppi hvetur sumarbústaðaeigendur til þess að skjóta upp flugeldum frekar heima hjá sér heldur en út í sumarbústað. Hann segir óvenju mikið hafa verið skotið upp í sveitinni á gamlársdag í ár með tilheyrandi eltingaleikjum við hrossin á bænum.

Gunnar Emil Árnason bóndi vakti athygli á því að mikið væri skotið upp í hreppnum í íbúahópi á Facebook. „Af hverju þurfið þið sumarhúsaeigendur að koma hingað úr Reykjavík eða einhverstaðar frá til að skjóta upp draslinu ykkar innan um skepnurnar okkar? Hafið dótið ykkar bara í bænum og gleðilegt nýtt ár.“

Gunnar segir í samtali við Vísi að betur hafi farið en á horfðist á gamlársdag. Mest hafi verið skotið upp síðdegis þann dag. Minna um kvöldið og líklega hafi fólk verið að skjóta upp flugeldum fyrir krakkana.

„Þetta var um fimmleytið, maður var hér á fullu í matargerð og varð að stökkva út til að elta graðhesta. Það var óvenjumikið skotið upp í ár, við höfum verið að lenda í þessu í gegnum árin en óvenju mikið núna. Við erum með svo mikið af hrossum sem við komum ekki öllu inn. Við erum umvafin þessum sumarbústöðum hér og það er auðvitað aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir þetta, en þetta hjálpar ekki.“

Höfðuð þið upp á öllum hrossunum sem fældust?

„Já þetta fór eins vel og hægt er, sem betur fer. En þetta er ekki gott, þau verða bara skelfingu lostin í þessu. Ég var á því að menn gætu bara verið heima hjá sér og skotið upp þar en ekki hér út í sveitinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×