Lífið

Hvað vildu Ís­lendingar vita á árinu 2025?

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Íslendingar höfðu mikinn áhuga á líffræðilegu kyni, bráðnun Grænlandsjökuls og Axlar-Birni á árinu en líka falli Sovétríkjanna, innrásinni í Úkraínu og gervigreind.
Íslendingar höfðu mikinn áhuga á líffræðilegu kyni, bráðnun Grænlandsjökuls og Axlar-Birni á árinu en líka falli Sovétríkjanna, innrásinni í Úkraínu og gervigreind. Getty/Vísindavefur

Vísindavefurinn hefur tekið saman þau svör á vefnum sem voru mest lesin árið 2025. Fólk var mikið að pæla í líffræðilegu kyni og áhrifum hlýnunar jarðar. Þá vekur athygli hve margir höfðu áhuga á Axlar-Birni.

Vísindavefur Háskóla Íslands geymir stórt safn svara fræðimanna um alls konar málefni og bætast ný svör við í hverri viku. Þegar listinn yfir vinsælustu nýju svörin árið 2025 er skoðaður kemur ýmislegt í ljós.

„Svör um líffræði kyns, jökla og loftslagsmál og um mikilvægi þess að hafa það sem sannara reynist, voru mest lesnu svörin á Vísindavefnum árið 2025,“ segir í grein Vísindavefsins.

Tvö efstu nýju svörin sneru að margbreytileika líffræðilegs kyns. Annars vegar er það spurningin „Eru kynin bara tvö?“ og hins vegar „Er hægt að sanna eða staðfesta líffræðilegt kyn fólks með litningarprófi?“.

Svar um hlýnun jarðar og áhrif þyngdarkrafts Grænlandsjökuls á sjávarstöðu, var í þriðja sæti yfir vinsælustu svörin og í fjórða og fimmta sætivoru tvö svör þar sem farið er í saumana á því hvað sé satt og hvað seinni tíma uppspuni í frásögnum af morðingjanum Axlar-Birni.

Fimm mest lesnu nýju svör ársins 2025

  1. Eru kynin bara tvö? eftir Arnar Pálsson
  2. Er hægt að sanna eða staðfesta líffræðilegt kyn fólks með litningaprófi? eftir Arnar Pálsson
  3. Hvernig breytist sjávarstaða við Ísland ef Grænlandsjökull bráðnar allur? eftir Guðfinnu Aðalgeirsdóttur og Helga Björnsson
  4. Hversu marga drap fjöldamorðinginn Axlar-Björn í raun og veru? eftir Má Jónsson
  5. Eru þekkt dæmi um aðra íslenska fjöldamorðingja en Axlar-Björn? eftir Má Jónsson

Þegar lestur eldri svara er skoðaður sést að stríðið í Úkraínu er enn ofarlega í huga margra og sama má segja um gervigreind. Svar um umbrotin á Reykjanesskaga er eitt af mest lesnu svörunum annað árið í röð enda atburðir þar enn í gangi og fá svör Vísindavefsins verið jafn oft uppfærð og það svar. 

„Að lokum er rétt að vekja athygli á miklum lestri á svari um kúluskít. Svarið er eitt af eldri svörum Vísindavefsins og sýnir að breiddin í lestri á svörunum er mikill,“ segir í grein vefsins um áhuga fólks.

Önnur fimm mikið lesin svör ársins 2025

  1. Hvað er gervigreind? eftir Ara Kristinn Jónsson
  2. Finnst kúluskítur á Íslandi? eftir Árna Einarsson
  3. Hverjar voru helstu ástæðurnar fyrir hruni Sovétríkjanna? eftir Gunnar Hólmstein Ársælsson
  4. Hverjar eru ástæður stríðsins í Úkraínu? eftir Jón Ólafsson og Val Gunnarsson
  5. Hvað hefur gosið oft á Reykjanesskaga síðan 2021 og hversu stór hafa gosin verið? eftir Magnús Tuma Guðmundsson, Jón Gunnar Þorsteinsson og Birgi. V. Óskarsson

„Enginn sérstakur efnisþáttur skar sig áberandi úr hvað vinsældir varðar á árinu 2025, ólíkt árinu 2024 þegar svör um stjórnmálafræði voru nær allsráðandi. Þó má nefna töluverðan áhuga á svörum sem öll tengjast næringarfræði á einn eða annan hátt,“ segir um áhuga fólks á efnisflokkum.

Þar má nefna spurningar um kreatín, glútenóþol, prótín í hænueggjum, D-vítamín og kollagen.

„Umferð um Vísindavefinn var með sambærilegu móti og undanfarin tvö ár. Árlegar heimsóknir voru rúmar tvær milljónir og flettingar rúmar þrjár milljónir,“ segir um aðsókn í vefinn.

Þá er tekið fram að samantekt yfir vinsælustu svörin er aðallega til gamans gerð. Oft muni litlu þegar tölur um lestur á svari í einhverju „sæti“ eru bornar saman við svar sem raðast einu eða jafnvel 50 „sætum“ neðar.


Tengdar fréttir

Hvað vildu Íslendingar vita á árinu?

Vísindavefurinn hefur tekið saman þau svör á vefnum sem voru mest lesin árið 2024. Fólk var mikið að pæla í eldgosum, vöxtum og starfsstjórn. Þá vekur athygli hve margir lásu um börn íslenskra kvenna og Tyrkjaránsmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.