Bíó og sjónvarp

Fáum við einn þátt í við­bót af Stranger Things?

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Krakkarnir í Stranger Things, sem reyndar eru orðnir rígfullorðnir, gætu birst í einum þætti í viðbót ef marka má samsæriskenningar á vefnum.
Krakkarnir í Stranger Things, sem reyndar eru orðnir rígfullorðnir, gætu birst í einum þætti í viðbót ef marka má samsæriskenningar á vefnum.

Þrálátur orðrómur er nú uppi á samfélagsmiðlum um það að Stranger Things sjónvarpsþáttaröðinni sé alls ekkert lokið líkt og áhöld hafa verið uppi um. Þáttaröðinni heimsfrægu lauk á Netflix á dögunum þegar áttundi þáttur fimmtu seríu fór í loftið og var þátturinn heilir tveir tímar að lengd.

Þáttaröðin Stranger Things er ein sú vinsælasta í heimi og hefur farið sigurför um heiminn frá því fyrstu þættirnir birtust á Netflix streymisveitunni árið 2016. Síðan þá hefur streymisveitan haldið fast í unga leikara þáttanna sem voru barnungir þegar fyrstu þættirnir komu út á sínum tíma. Það þótti því mikill viðburður þegar þættirnir kláruðust loksins á dögunum en lokaþátturinn féll misvel í kramið hjá aðdáendum.

Þannig er hann sem dæmi með 79 prósenta einkunn á IMDB á meðan aðrir lokaþættir í seríunni hafa klokkað í kringum níutíu prósent í einkunn. Eftir að þátturinn fór í loftið hafa aðdáendur á samfélagsmiðlum flykkst á miðlana og bent á ýmis merki sem þeir fullyrða að bendi til þess að í raun og veru sé einn þáttur eftir. 

Meginkenningin hefur gengið út á að sá þáttur eigi að heita „Conformity Gate“ og telja netverjar að þátturinn eigi að koma út í dag, 7. janúar. Hvorki Netflix né framleiðendur þáttanna hafa staðfest sannleiksgildi þessara kenninga.

Lesendur Vísis eru varaðir við spillum úr fimmtu seríu Stranger Things sem finna má hér að neðan. 

Ekki er hægt að fjalla um eðli samsæriskenninga aðdáenda án þess að minnast með beinum hætti á spilla úr áttunda þætti sem er einmitt opinber lokaþáttur þegar þetta er skrifað. Lesendur hafa verið varaðir við spillum!

Ýmislegt sem var talið furðulegt í áttunda þætti

Í myndböndum sem hafa farið með himinskautum á TikTok og finna má í hinar ýmsu kenningar um lokaseríu Stranger Things er bent á að það séu ýmis atriði í áttunda þættinum sem séu furðuleg og stingi í stúf. Virðist meginkenningin ganga út á það að illmennið Vecna hafi skapað tálsýn í huga aðalpersóna þáttanna um hamingjuríkan endi.

Eru ýmis atriði nefnd sem dæmi um það. Til að mynda sú staðreynd að Steve þjálfi í lokaþættinum hafnabolta en ekki körfubolta sem hafi verið hans uppáhalds íþrótt. Netverjar reka það til þess að Vecna þekki Steve einungis með hafnaboltakylfu í hönd.

Farið er yfir málið í myndbandinu hér fyrir neðan.

@mswatchmojo New Stranger Things episode tomorrow guys! Right? Right??? 🤪 #strangerthings #conformitygate #television ♬ original sound - msmojo

Þá er bent á dularfullar aukapersónur í útskrift krakkanna. Persónurnar séu margar með dularfull gleraugu á sér og sitji með hendur í skauti líkt og sjálfur Henry Creel, sem að lokum varð Vecna. Þá rifji Will upp minningu í lokaþættinum um að hann og vinir hans hafi alltaf fengið sér mjólkurhristing á Melvald og muni eftir staðnum sem matreiðsluvagni. Hið rétta sé hinsvegar miðað við fyrstu þættina að það sé matvöruverslun, en á tímum Henry á sjötta áratugnum hafi það verið matreiðsluvagn.

Einnig er bent á að bækur í bakgrunni í kjallara krakkanna myndi saman stafina: X-L-I-E - eða X-L-Y-G-I. Lygi. Þá er bent á að útvarpsskífan í þáttunum breyti óvænt um lit. Það sé nákvæmt smáatriði sem bent hafi verið á bæði í þættinum og í markaðsefni að skipti máli í öðrum þáttum þegar Vecna skapar raunveruleika aðalpersóna.

Þá hafa netverjar skýra kenningu um það hvers vegna hinn nýi lokaþáttur eigi að koma út í dag 7. janúar. Í allra fyrsta atriðinu með strákunum að spila Dungeons and Dragons í allra fyrsta þættinum hafi Will kastað tening og fengið töluna sjö upp á teningnum. Þá hafi hann fórnað sér til að sigrast á skrímslinu í spilinu. Aðdáendur eru sannfærðir um að þetta hafi ekki bara verið teningakast heldur tímakóði. Þetta hafi verið sami tími og Will hafi verið týndur í fyrstu seríu, sjö dagar. 7. janúar séu sjö dögum frá því að áttundi þátturinn hafi komið út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.