Skoðun

Opið bréf vegna lang­varandi ein­angrunar

Ragnheiður Svava Þórólfsdóttir skrifar

Ég leyfi mér hér með að beina opnu bréfi til Fangelsismálastofnunar vegna langvarandi einangrunar Anítu á Hólmsheiði.

Þrátt fyrir mikla og ítrekaða gagnrýni, meðal annars frá Amnesty International, situr Aníta enn í einangrun. Upphaflega stóð til að henni yrði sleppt úr einangrun 22. desember, en sú ákvörðun var framlengd um fjórar vikur. Við það mun hún hafa setið í einangrun í samtals um 144 daga. Á sama tíma liggur fyrir að hún hefur ekki verið dæmd í máli sínu og að aðalmeðferð er ekki áætluð fyrr en í febrúar.

Ég tel þetta vera alvarlegt brot á mannréttindum og í andstöðu við bæði íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þar ber sérstaklega að nefna Nelson Mandela-reglur Sameinuðu þjóðanna (United Nations Standard Minimum Rules for the Treatment of Prisoners), sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða.

Samkvæmt reglu 44 telst einangrun sem varir lengur en 15 daga langvarandi einangrun. Samkvæmt reglu 43 er slík meðferð skilgreind sem grimm, ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð og er með öllu bönnuð. Reglur 45 kveða jafnframt skýrt á um að einangrun megi einungis beita sem síðasta úrræði, í sem stystan tíma, með skýrum rökstuðningi, reglulegri endurskoðun og nánu eftirliti heilbrigðisstarfsfólks. Sérstaklega er varað við beitingu einangrunar gagnvart einstaklingum sem ekki hafa verið dæmdir.

Þekking á áhrifum langvarandi einangrunar er vel skjalfest. Rannsóknir í sálfræði, læknisfræði og taugavísindum sýna að félagsleg einangrun getur valdið alvarlegum og jafnvel varanlegum skaða á andlegri og líkamlegri heilsu. Þar má nefna skerðingu á heilastarfsemi, kvíða, þunglyndi, sjálfsskaða, áráttukennda hegðun og aukna sjálfsvígshættu. Þau einkenni sem hafa verið lýst hjá Anítu eru í fullu samræmi við þessi þekktu áhrif.

Svipuð hegðun hefur um áratugaskeið verið skjalfest hjá dýrum sem sæta einangrun eða eru haldin í of litlum búrum. Hvalir í haldi hafa sýnt sjálfsskaðandi hegðun, synt af miklum hraða á veggi búra og valdið sér alvarlegum heilaskaða. Apar í einangrun bíta sig, rífa upp feld sinn, ganga endalaust í hring og rugga sér ítrekað. Gíraffar þróa með sér óeðlileg og áráttukennd hreyfimynstur sem leiða til sjálfsskaða. Fuglar plokka úr sér fjaðrir þar til myndast blæðandi sár og sýkingar. Þessi hegðun er bein afleiðing skorts á félagslegum samskiptum og örvun. Sú lýsing sem liggur fyrir á ástandi Anítu ber uggvænlega sterk líkindi við þessi þekktu áhrif einangrunar.

Ég krefst þess að Fangelsismálastofnun:

  • fari tafarlaust yfir lögmæti og nauðsyn áframhaldandi einangrunar í þessu máli,
  • tryggi að farið sé að íslenskum lögum og alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum,
  • veiti skrifleg svör um ástæður framlengingar einangrunarinnar og geri grein fyrir þeim úrræðum sem standa til boða til að tryggja öryggi og heilsu viðkomandi án einangrunar.

Málið varðar ekki einungis Anítu heldur grundvallaröryggi og réttindi allra sem dvelja í vörslu ríkisins. Ef slíkt ástand er látið óátalið gagnvart einum einstaklingi, þá er enginn óhultur.

Ég fer fram á formlegt svar við þessu erindi og opinbera skýringu á því hvernig þessi meðferð samræmist mannréttindaskuldbindingum Íslands.

Höfundur er mannréttindasinni.




Skoðun

Sjá meira


×