Innlent

Ungt barn með mis­linga á Land­spítalanum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Barnaspítali Hringsins.
Barnaspítali Hringsins. Vísir/Vilhelm

Ungt barn á Landspítalanum greindist með mislinga en barnið kom heim erlendis frá síðastliðinn mánudag. Barnið var á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins daginn eftir og verður haft samband við alla sem hugsanlega voru útsettir fyrir smiti á spítalanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landlæknisembættinu. Þar segir að sérstaklega hafi verið haft samband við þau flugfélög sem fluttu barnið þann 5. janúar og verða farþegar upplýstir um smithættu.

„Mislingar eru bráðsmitandi skæður veirusjúkdómur sem smitar frá öndunarvegi. Einkenni geta komið fram hjá smituðum 1−3 vikum eftir smit. Þau sem hafa verið bólusett fyrir mislingum eða fengið mislinga áður smitast mjög ólíklega en ef það gerist eru einkenni oftast væg. Óbólusettir eru hins vegar í áhættu fyrir smiti og veikindum.“

Eru þeir sem haft verður samband við vegna hugsanlegrar útsetningar og fá einkenni líkt og hita, kvefeinkenni, augnroða og/eða útbrot á næstu tveimur til þremur vikum, sérstaklega ef þeir hafa ekki verið bólusettir fyrir mislingum eða ekki fengið mislinga, eindregið hvattir til að hafa samband við lækni eða heilsugæslu símleiðis (1700 á höfuðborgarsvæði) eða gegnum netspjall Heilsuveru.

„Ef þú telur þig vera óbólusettan og vilt láta bólusetja þig við mislingum, hafðu samband við lækni/heilsugæslu símleiðis (1700 á höfuðborgarsvæði) eða gegnum netspjall Heilsuveru. Athugið að bólusetning vegna útsetningar þarf að eiga sér stað ekki seinna en 8. janúar tengt fluginu og 9. janúar tengt Barnaspítala.“

Frekari upplýsingar um mislinga má finna á vef embættis landlæknis.


Tengdar fréttir

Verra að fá sýkinguna en bólusetninguna

Sóttvarnalæknir, Guðrún Aspelund, segir börn í miklu meiri hættu ef þau eru ekki bólusett við mislingum. Mislingar eru veirusjúkdómur sem var algengur á Íslandi áður en hefur ekki verið það lengi vegna bólusetninga.

Ekki fleiri greinst með mis­linga í Bandaríkjunum í 33 ár

Alls höfðu um 1.300 verið greindir með mislinga í Bandaríkjunum síðasta föstudag og hafa tilfellin ekki verið svo mörg í 33 ár. Árið 2000 var því lýst yfir að búið væri að útrýma sjúkdómnum í Bandaríkjunum. Auðvelt er að koma í veg fyrir að fólk fái sjúkdóminn með bóluefni.

Hafa áhyggjur af gífurlegri fjölgun mislingasmitaðra í Evrópu

Vitað er til þess að rúmlega þrjátíu þúsund manns smituðust af mislingum í Evrópu í fyrra. Árið 2022 smituðust 941 og samsvarar aukningin því rúmlega þrjátíuföldun. Þetta kom fram á fundi ráðstefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×