Fótbolti

Mikael krækti í víti og var grát­lega nærri sigri á Milan

Sindri Sverrisson skrifar
Mikael Egill Ellertsson og Rafael Leao komu báðir við sögu í leiknum í kvöld.
Mikael Egill Ellertsson og Rafael Leao komu báðir við sögu í leiknum í kvöld. Getty/Marco Luzzani

Minnstu munaði að AC Milan tapaði sínum fyrsta deildarleik síðan í ágúst, þegar liðið mætti Mikael Agli Ellertssyni og félögum í Genoa í kvöld. Niðurstaðan 1-1 jafntefli eftir að vítaspyrna Genoa í blálokin fór forgörðum.

Lorenzo Colombo kom gestunum frá Genoa yfir á 28. mínútu og það leit út fyrir að verða sigurmark því staðan var enn 1-0 þegar 90 mínútur voru komnar á klukkuna.

Á annarri mínútu uppbótartíma náði hins vegar Rafael Leao að jafna metin með skalla.

Þá var hins vegar enn tími til stefnu og Mikael, sem hafði komið inná á 64. mínútu, náði að krækja í vítaspyrnu seint í uppbótartímanum, þegar Davide Bartesaghi braut á honum innan teigs. Nokkuð augljóst brot en þó fór langur tími í að taka lokaákvörðun.

Að biðinni lokinni tók Nikolae Stanciu vítaspyrnuna en skaut yfir markið.

Inter-menn fagna þó úrslitunum eflaust enda eru þeir nú með þriggja stiga forskot á AC Milan á toppnum, þegar bæði lið hafa lokið átján leikjum. Genoa er hins vegar með 16 stig í 17. sæti, þremur stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×