Tónlist

Nýtt lag frá Halla Reynis sex árum eftir and­lát hans

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Eftir andlát Haraldar Reynissonar árið 2019 fann sonur hans, Reynir Haraldsson, lagið „Reykjavík“ á gömlum geisladiski sem kemur nú loksins út.
Eftir andlát Haraldar Reynissonar árið 2019 fann sonur hans, Reynir Haraldsson, lagið „Reykjavík“ á gömlum geisladiski sem kemur nú loksins út. Vísir/GVA/Spotify

Lagið „Reykjavík“ eftir Halla Reynis kom út í dag, rúmum sex árum frá andláti tónlistarmannsins. Sonur Halla fann lagið á gömlum geisladiski eftir andlát föður síns 2019 og fannst það of gott til að liggja ósnert. Lagið súmmeri upp það sem gerði Halla að góðum tónlistarmanni og sé einföld en djúp frásagnarlist við gítarspil.

Reynir Haraldsson, sonur Halla, tónlistarmaður og knattspyrnumaður, greindi frá fréttum af útgáfunni í Facebook-færslu fyrir tveimur dögum síðan.

„Þegar pabbi lést árið 2019 voru ýmis gögn og annað grafið upp - þar sem eitt og annað skemmtilegt fannst,“ skrifar Reynir í færslunni.

Halli Reynis var ættaður úr Dölunum en bjó lengst af í Reykjavík og skilgreindi sig sem Breiðhylting. Hann starfaði lengi sem trúbador, gaf út níu sólóplötur, tók tvisvar þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins og starfaði sem tónmenntakennari við Ölduselsskóla í Breiðholti. Hann lést árið 2019 aðeins 52 ára gamall eftir erfiða glímu við veikindi.

Reynir segir í færslunni að eftir andlát Halla hefði lögum og textum verið komið fyrir í skýjaþjónustum internetsins. Eitt af því sem fannst við þá vinnu hefði verið lagið „Reykjavík“ á geisladiski sem hafði séð fífil sinn fegurri.

„Ég er 99% viss að lagið hafi verið tekið upp milli kennslustunda í Ölduselsskóla - og þótt spilamennska hafi verið frábær að þá hafði bæði verið sett á bráðabirgða hljóðblöndun og mikið suð heyrðist sem hefur komið frá miklu flakki þess lags,“ skrifar Reynir í færslunni.

Reynir hefur sjálfur gefið út tónlist undir nafninu Reynir.

„Ég reyndi sjálfur að mixa og mastera þennan eina 'file' en aldrei var ég sáttur með útkomuna. Ég leitaði til fagmanna og fékk góða hjálp frá mönnum sem starfa á þessu sviði.“

Reynir segir að hann hafi talað mikið um lagið við föðurbróður sinn heitinn, Gunnlaug Reynisson, tvíburabróður Halla sem var jafnan kallaður Gulli Reynis, starfaði líka lengi sem trúbador og lést eftir langa glímu við krabbamein á Líknardeildinni í nóvember síðastliðnum.

Sjá einnig: Gulli Reynis látinn

„Við Gulli heitinn töluðum mikið um þetta lag - þetta er of gott lag til að sitja í möppu. Gulli tók þetta lag á sínum tónleikum og einnig tókum við þetta upp í hljóðveri hjá mér,“ skrifar Reynir í færslunni.

„Mér finnst þetta lag súmmera að mörgu leyti upp það sem gerði pabba að góðum tónlistarmanni. Þetta er einföld en djúp frásagnarlist sem er komin fyrir í þægilegt gítarspil.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.