Handbolti

Svíar syrgja 31 árs gamlan handboltamann

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Rhodin varð leikmaður Aranäs eftir að hann kom sér aftur á handboltavöllinn, eftir aðgerð vegna krabbameins í heila.
Viktor Rhodin varð leikmaður Aranäs eftir að hann kom sér aftur á handboltavöllinn, eftir aðgerð vegna krabbameins í heila. HK Aranäs

Sænski handboltamaðurinn Viktor Rhodin er látinn, aðeins 31 árs að aldri, eftir að hafa glímt við krabbamein.

Rhodin lék með liðum Sävehof, Önnered og svo Aranäs í Svíþjóð. Hann var leikmaður Önnered þegar hann greindist fyrst með krabbamein í heila, fyrir tæpum sex árum.

Rhodin gekkst undir aðgerð vegna krabbameinsins og náði að vinna upp heilsu og snúa aftur á handboltavöllinn. Hann æfði með hjálm á höfðinu en var meinað að nota hann í leikjum og spilaði því án hans.

Vorið 2024 kom í ljós að krabbameinið hefði snúið aftur og hrakaði Rhodin hratt. Hann lést svo á þrettándanum, þann 6. janúar síðastliðinn.

Sænski landsliðsmaðurinn Sebastian Karlsson, sem nú er að undirbúa sig fyrir komandi Evrópumót, var liðsfélagi Rhodin hjá Sävehof og í yngri landsliðum Svíþjóðar. Hann fór fögrum orðum um vin sinn í Göteborgs-Posten:

„Hann er vingjarnlegasti maður sem gengið hefur um þessa jörð. Ótrúlega góður maður sem alltaf lét sér annt um aðra og vildi að öllum liði vel. Óhemju hlýr og ástríkur maður. Ég get ekki ímyndað mér hvað fjölskylda hans er að ganga í gegnum núna,“ sagði Karlsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×