Handbolti

„Elli“ gerði Al­freð og hans mönnum lífið leitt

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason hefur sjálfsagt ekki kippt sér upp við vetrarstorminn í Þýskalandi en veðrið hafði sín áhrif á ferðalag hans og þýska liðsins.
Alfreð Gíslason hefur sjálfsagt ekki kippt sér upp við vetrarstorminn í Þýskalandi en veðrið hafði sín áhrif á ferðalag hans og þýska liðsins. Getty/Goran Stanzl

Vetrarstormurinn „Elli“ hafði mikil áhrif á ferðalag þýska handboltalandsliðsins eftir að það hafði unnið Króatíu í Zagreb á fimmtudagskvöld.

Alfreð Gíslason og Dagur Sigurðsson mætast að nýju í Hannover í Þýskalandi í kvöld, með lið Þýskalands og Króatíu, eftir að Alfreð fagnaði 32-29 sigri í troðfullri höll í Zagreb þegar liðin mættust á fimmtudaginn. Um er að ræða lokaundirbúning liðanna fyrir Evrópumótið sem hefst á fimmtudaginn.

Þjóðverjar höfðu ætlað sér að fljúga heim frá Zagreb, til Frankfurt og þaðan áfram til Hannover. Þeir komust til Frankfurt, á föstudaginn, en gátu svo ekki flogið áfram fyrr en í fyrsta lagi daginn eftir. Ástæðan er hið mikla snjóveður sem verið hefur í Þýskalandi um helgina og sett margt úr skorðum.

„Liðið ætlaði sér að eiga liðskvöld saman en það breyttist í liðsferð,“ sagði Benjamin Chatton, liðsstjóri þýska hópsins, við Sport 1 á föstudaginn.

Til þess að menn gætu slakað á og jafnað sig á laugardeginum var brugðið á það ráð að aka með rútu á föstudagskvöldinu, til Hannover, og komst hópurinn þangað laust fyrir miðnætti eftir langan ferðadag.

„Það var rétt ákvörðun að fara beint frá Fankfurt til Hannover með rútu. Þó að ferðatíminn hafi þrefaldast og verið næstum tólf tímar þá var andrúmsloftið gott í morgunmatnum og á léttri æfingu í kjölfarið,“ sagði Chatton í gær.

Fyrirliðinn Johannes Golla var ekki með þýska hópnum í gær, af persónulegum ástæðum, en búist er við því að hann verði með liðinu í kvöld þegar það mætir Króötum öðru sinni.

Þjóðverjar hefja svo EM á fimmtudaginn með leik við Austurríki í A-riðli í Herning í Danmörku. Þeir eru einnig í riðli með Serbíu og Spáni.

Króatar eru í E-riðli og byrja á laugardaginn með leik við Georgíu, áður en þeir mæta svo Hollandi og Svíþjóð.

Miklar væntingar eru til bæði þýska og króatíska liðsins enda stýrði Alfreð Þýskalandi til silfurs á síðustu Ólympíuleikum og Dagur stýrði Króatíu til silfurs á HM fyrir tæpu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×