Skoðun

Hug­leiðing um hernað

Ámundi Loftsson skrifar

Um miðja síðustu öld fór ljóðskáldið hugsuðurinn og Steinn Steinarr í heimsókn til Sovétríkjanna. Þessi heimsókn hans var á sínum tíma talsvert umtöluð þar sem hún olli sinnaskiptum í afstöðu sinni til stjórnarfars þessa heimshluta. Hann var ekki hrifinn.

Í viðtali við hann í Alþýðublaðinu 1956 lýsi hann þessari breyttu afstöðu sinni og var þá m.a. spurður hvort hann telji Rússa vera friðelskandi þjóð. Þá svaraði hann svona.

- „Rússar hafa fundið upp friðinn, hvorki meira né minna, og má það telja nokkuð laglega gert. Þar með er ekki loku fyrir það skotið, að þeir hyggi á landvinninga og jafnvel heimsyfirráð í vissum skilningi.“ – Og síðan segir Steinn..

-„Þeim er sem sé ljóst, að friðsamleg vinna getur gert þá ríka og volduga langt út fyrir öll staðbundin landamæri.“ Og síðar ...

-„Og þeim er ljóst að heimurinn verður ekki unninn með vopnum, heimurinn verður einungis unninn með snilldarlegum áróðri og takmarkalausum auðæfum. Þetta vita þeir sem nú stjórna Sovjet-Rússlandi og þess vegna kjósa þeir friðinn framar öllu öðru. Hann er þeirra sterkasta vopn.“

Hvort sem þessi sýn Steins hefur verið rétt og hugsanlega ráðið einhverju um það hvernig ásýnd veraldarinnar varð svo eftir Höfðafundinn fræga á níunda áratugnum þá eiga þau fullt erindi við samtímann. Þau eru í raun sígild.

Hvar sjást þess merki að hernaðarátök hafi skilað ávinningi og gert heiminn öruggari og betri? Hvar sjáum við annan árangur hernaðar en kvöl og dauða, eyðileggingu, hrun samfélaga?

Minnumst því orða skáldsins, „að heimurinn verður ekki unninn með vopnum.“ Hinsvegar er vandalítið að tortíma honum með hernaði. Þess vegna verða þjóðir heimsins nú að láta af meðvirkni með hernaðarhyggjunni og standa af sér ákall hennar um þátttöku í tilgangslausu hernaðarbrjálæði í heiminum.

Höldum þess í stað þeirri knýjandi nauðsyn stöðugt uppi að það er eitt megin hlutverk alþjóðastjórnmála er að vinna að bættum samskiptum þjóða og að verður ekki gert með hernaði.

Höfundur er fyrrum sjómaður og bóndi.




Skoðun

Sjá meira


×