Körfubolti

„Mjög hentugt að fá viku til að koma honum inn í hlutina“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Daníel Guðni bindur miklar vonir við komu Remy Martin til Keflavíkur.
Daníel Guðni bindur miklar vonir við komu Remy Martin til Keflavíkur.

Remy Martin snýr aftur til leiks með Keflavík í kvöld, þegar liðið heimsækir Val á Hlíðarenda í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar í körfubolta.

Remy Martin var besti leikmaður Keflavíkur þegar liðið varð bikarmeistari árið 2024 en hann sleit síðan hásin í úrslitakeppni Bónus deildarinnar síðar um vorið. Hann hefur verið án félags síðan. 

„Hann hefur bara komið vel inn í hlutina, síðan hann mætti rétt fyrir áramót. Við erum búnir að hafa smá tíma núna, út af færða leiknum gegn Tindastóli, þannig að við höfum komið honum vel inn í þetta“ segir Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, um komu Remy Martin.

Leiknum gegn Tindastóli var frestað vegna Evrópuleiks Stólanna, sem kom sér vel fyrir Keflavík.

„Já þar sem við ákváðum að fara í breytingar á leikmönnum liðsins, þá var mjög hentugt að fá viku til að koma honum inn í hlutina. Það hefði verið skemmtilegra að koma honum inn í leikinn á móti ÍR [þann 4. janúar], en við komum því ekki í gegn. Þannig að hann verður bara klár í kvöld.“

Þegar Remy Martin spilaði síðast var hann einn albesti leikmaður landsins, en hann hefur ekki spilað körfuboltaleik í rúmt eitt og hálft ár, þannig að við hverju má búast frá honum?

„Við bindum vonir við það [að hann sé jafn góður og þá]. Sérstaklega sóknarlega, en við viljum líka leggja mikið upp úr okkar varnarleik. Þegar maður var að þjálfa gegn Remy síðast, það var ekkert skemmtilegasta verkefni í heimi. Vonandi verður hann góður fyrir okkur í vetur og vor sérstaklega, við bindum allavega vonir það að hann komi með sín vopn að borðinu.“

Fyrsti leikurinn í rúma átján mánuði verður líka ekki af minni gerðinni, átta liða úrslitaleikur á Hlíðarenda.

„Vissulega vill maður kannski sjá leikmanninn í alvöru átökum áður en maður fer inn í svona leik, en þetta er fagmaður fram í fingurgóma. Það vita líka allir leikmenn liðsins að þetta verður skemmtilegt verkefni í kvöld og menn vilja sýna sitt rétta andlit eftir frammistöðurnar gegn Val og ÍR í síðustu umferðum.“

Valur vann einmitt tuttugu stiga sigur gegn Keflavík í deildarleik liðanna fyrir mánuði síðan. Daníel segir varnarleikinn verða að vera betri í kvöld.

„Við náðum að skora yfir níutíu stig en fengum full mikið af stigum á okkur. Við þurfum að þétta raðirnar, það er fókusinn hjá okkur.“

Remy Martin veitir viðtal í Sportpakka Sýnar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×