Skoðun

Á­fram, hærra

Logi Pedro Stefánsson skrifar

Nú eru liðin rúm 30 ár síðan ég flutti til Íslands. Við fjölskyldan vorum hér að heimsækja ættingja þegar óvænt veikindi urðu til þess að við ílengdumst í sumarfríi, og hér erum við enn 30 árum síðar. Við fundum okkur heimili í miðbænum, til að búa í grennd við spítalann, og við bræður gengum svo í Grænuborg og Austurbæjarskóla. Ég var þriggja ára þegar ég kom, hér ól ég manninn, og hér ætla ég að vera.

Borgin hefur breyst mikið þessa þrjá áratugi en ég get með sanni sagt að það er gott að búa í Reykjavík. En það eru tímamót framundan í borginni. Þrátt fyrir skýran árangur og gott gengi undanfarin ár eru þó nokkur mál sem við borgarbúar viljum að séu tekin fastari tökum. Skipulagsmál og fagurfræði nýrra húsa eru í deiglunni. Hverfin þurfa aukna þjónustu, hverfisverslanir og hverfiskaffihús. Við verðum að taka á leikskólamálum, og hlusta á fólkið sem vinnur á leikskólunum. Við þurfum að létta á reglugerðum, knýja fólk og fyrirtæki áfram til góðra verka, og passa vel upp á stemmninguna í samfélaginu okkar. Og þess vegna held ég að það sé kominn tími til að rétta keflið áfram og hleypa nýju fólki að.

Á síðasta ári var kominn ókyrrð í mig og marga í kringum mig. Pólítíska landslagið á Íslandi hefur breyst, og meiri harka komin í umræðuna. Fjarhægrið sækir áfram á ótta og reynir að hræða fólk til sín. Þar er statt og stöðugt verið að dæla út mannfjandsamlegum skoðunum, og skrattinn er málaður á vegginn við hvert tækifæri. Það liggur fyrir að íslenskt samfélag muni mæta stórum áskorunum næstu ár og áratugi. En valið liggur hjá okkur hvort við mætum þeim áskorunum með jákvæðni, styrk og seiglu, eða niðurbroti og neikvæðni. Ég þekki vel þann kima samfélagsins sem niðurrifsöflin reyna að tala niður og ég veit að þar liggja gullin tækifæri til að styrkja okkar samfélag og gera það ríkara og betra.

En til þess að mæta þessum áskorunum þurfum við fólk sem getur tekið slaginn. Hvort sem það er í landsmálunum eða á sveitarstjórnarstiginu. Einstaklinga sem treysta sér að taka umræðuna af festu, á uppbyggjandi hátt og leyfa sér að benda á styrkleikana. Og þess vegna tók ég upp á því hjá sjálfum mér að hringja í Pétur Marteinsson seint á síðasta ári, til að hvetja hann til að stíga inn í pólítíkina.

Pétur er leiðtogi. Reynslumikill rekstrarmaður og íþróttakappi, sem mætir til dyranna eins og hann er klæddur, mennskur og brosandi. Hann stendur í lappirnar, situr vel í sér og leyfir sér að vera jákvæður. Hann hefur dýrmæta reynslu af því að styrkja nærumhverfið sitt með hverfiskaffihúsinu Kaffi Vest og Kex Hostel, og hefur sömuleiðis öfluga reynslu af skipulagsmálum. Pétur þekkir því vel til almannarýma, en það er fátt mikilvægara fyrir samfélag á norðurhjara veraldar en að eiga sterk „þriðju rými“, eða rýmin fyrir utan heimili og vinnu. Hvort sem það eru sundlaugarnar okkar, íþróttafélögin eða félagsmiðstöðvarnar þá er skýrt að þessi almannarými þar sem við mætum hvort öðru eru hryggjarstykkið í sterku og samheldnu samfélagi, og sömuleiðis lykilþáttur í því að bjóða aðfluttum íbúum að koma inn og taka þátt. Rýmin þar sem mennskan fær pláss og við horfum í augun á hvort öðru. Og þetta eru hlutir sem við Pétur höfum rætt okkar á milli, hvernig við getum styrkt nærumhverfið, stuðlað að blómlegu íþrótta- og tómstundalífi, og knúið áfram lifandi menningarumhverfi.

Við búum í einstöku samfélagi. Ef að við ætlum að passa upp á samfélagið okkar þá er mikilvægt að við hvetjum leiðtogana okkar áfram til góðra verka. Að þau standi við það sem þau segi og að þau mæti áskorunum á uppbyggjandi og jákvæðan hátt. Að þau haldi í heiðri mátt orðsins, af því það hvernig við tölum og hvernig við tjáum okkur skiptir höfuðmáli.

Og þess vegna hvet ég þig til að kjósa Pétur.

Höfundur er tónlistarmaður og iðnhönnuður.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×