Skoðun

Þegar fátt virðist gerast: Hvað er í raun að gerast þegar börn leika sér í leik­skóla?

Margrét Gígja Þórðardóttir og Ingibjörg Vilbergsdóttir skrifa

Í leikskóla þar sem börn leika sér í kliði og kyrrð kann að virðast sem fátt sé að gerast. Kennari er í nánd, fylgist með en grípur ekki alltaf inn í leik barnanna. Fyrir utanaðkomandi getur þetta litið út fyrir að vera einfalt – jafnvel aðeins barnagæsla.

En á þessum augnablikum fer fram faglegt starf sem byggir á þekkingu, ígrundun og ábyrgð. Starf sem skiptir máli fyrir börn og allt samfélagið.

Undir yfirborðinu fer fram stöðug greining og fagleg ákvarðanataka. Í leik barna á aldrinum 2–5 ára fer fram mikilvægt nám. Þar læra þau að tala og hlusta, semja og bíða, leysa vandamál og stjórna tilfinningum. Leikurinn er leið barnsins til að skilja heiminn og sjálft sig. Leikurinn er eins konar „æfingasvæði fyrir framtíðina“. Því er leikur barna ekki hlé frá námi – leikurinn er námið.

Á meðan börnin leika sér er hugur kennarans á fullu. Leikskólakennarinn greinir leikinn með faglegri greiningu sem byggir á námi, reynslu og þekkingu á þroska barna, kenningum um leikinn, kennslufræði og siðferðilegri ábyrgð. Hann tekur eftir hver leiðir, hver fylgir og hver stendur til hliðar. Hann hlustar eftir málnotkun, fylgist með samskiptamynstrum, metur þroska, þroskafrávik og hvort leikurinn styðji vellíðan og þátttöku allra barna.

Á hverri mínútu eru teknar faglegar ákvarðanir: á að grípa inn í eða bíða? Eru aðstæðurnar tækifæri til náms eða krefjast þær nánari skoðunar eða inngrips frá kennara? Þessar ákvarðanir eru oft teknar hratt, en byggja á fagmenntun, reynslu og ígrundun. Að stíga meðvitað til hliðar er því oft fagleg ákvörðun – ákvörðun um að gefa barninu rými til að læra í eigin ferli. Ákvarðanir sem teknar eru í leik barna hafa áhrif á líðan þeirra, félagslega stöðu og framtíðar nám.

Sjálfsprottinn leikur barna er heldur ekki tilviljun. Hann á sér stað innan faglega mótaðs umhverfis sem byggir á markvissum undirbúningi, ígrundun og skipulagi af hálfu leikskólakennara. Umhverfið í leikskólanum er hluti af kennslunni: rými, efniviður og skipulag eru mótuð með skýran tilgang – að styðja við sjálfsprottinn leik, sköpun, samvinnu og þátttöku.

Þegar barn stendur á jaðri leiksins sjá sumir barn sem „vill ekki vera með“. Leikskólakennarinn sér barn sem þarf tíma, öryggi og rétt augnablik til að stíga inn. Í slíkum aðstæðum er unnið markvisst að jöfnum tækifærum og að tryggja að enginn verði útundan. Rannsóknir á leik barna sýna að gæði leiks og faglegur stuðningur fullorðinna skipta sköpum fyrir sjálfstjórn, félagsfærni og nám til framtíðar.

Umönnun er órjúfanlegur hluti leikskólastarfs en er hvorki einföld né ófagleg. Hún er óaðskiljanleg frá námi. Þegar ágreiningur kviknar í leik sér óþjálfað auga vandamál, en leikskólakennarinn sér tækifæri til að þjálfa samskipti, samkennd og lausnaleit. Starfið byggir einnig á samvinnu kennara, samtali við foreldra og samstarfi við aðra fagaðila þegar þess er þörf.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið. Þar er lagður grunnur að líðan, námsfærni og félagslegri þátttöku barna. Sú vinna sem þar fer fram hefur áhrif langt út fyrir veggi leikskólans, á daglegt líf fjölskyldna og framtíð samfélagsins alls. Þegar litið er á leikskólastarf sem einfalt er verið að horfa fram hjá þeirri faglegu og siðferðilegu ábyrgð sem felst í starfinu.

Þessi faglega vinna er ekki einkamál leikskólakennara heldur sameiginleg ábyrgð leikskólans, stjórnenda, foreldra og samfélagsins alls.

Næst þegar við ræðum leikskóla er vert að staldra við, því þar fer fram faglegt starf sem byggir á þekkingu, ígrundun og ábyrgð – starf sem er sameiginleg ábyrgð okkar allra.

Viljum við tryggja börnum öruggan og góðan grunn verðum við að standa vörð um fagmennsku og tryggja að leikskólar séu mannaðir faglegu starfsfólki.

Höfundar starfa báðar við Leikskólann Sólborg í Reykjavík, sem aðstoðarleikskólastjóri og leikskólastjóri og skrifa hér um reynslu sína af leikskólastarfi.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×