Skoðun

Getur Sam­fylkingin leitt breytingar í Reykja­vík?

Jóhannes Óli Sveinsson skrifar

Borgarbúar fylgjast nú með prófkjöri Samfylkingar í Reykjavík. Málstaður okkar jafnaðarfólks nýtur mikils stuðnings meðal landsmanna og jafnaðafólki hefur verið treyst fyrir stjórn borgarinnar um árabil.

Eftir 16 ára samfellda forystu Samfylkingar munu borgarstjórnarkosningar í vor snúast um það hvort tekin verður harkaleg U-beygja til hægri eða hvort Samfylkingin getur leitt breytingar í Reykjavík? Ég lít svo á það sé skylda okkar jafnaðarfólks að leiða jákvæðar breytingar í þágu borgarbúa. Ég vil ekki sjá einhverja fjarhægrivitleysu í borgarstjórn. Og ég vona að við sem tökum þátt í prófkjöri flokksins í borginni stillum upp sigurstranglegum framboðslista sem býður borgarbúum upp á betri valkost en harðlínuhægrið þykist bjóða.

Reykjavík er frábær borg. Þorri borgarbúa er með sterka jafnaðartaug og margir líta til Samfylkingar. En við jafnaðarfólk megum aldrei taka trausti borgarbúa sem gefnu. Við megum ekki skorast undan því að leiða breytingar og festast í þægilegum valdastólum.

Þvert á móti. Það er Samfylkingin sem á að leiða breytingar í Reykjavík. Á grunni jafnaðarmennsku – í þágu borgarbúa. Til þess þarf kjark til að breyta. Kjark til að hrista upp í hlutunum og kalla nýtt fólk til verka og forystu með fjölbreytta reynslu af því að lifa og starfa í borginni. Við eigum að vera óhrædd, líta í eigin barm og hlusta vandlega á fólkið sem við störfum fyrir.

Eða til hvers er jafnaðarstefnan? Til hvers er barist og hvert er hlutverk Samfylkingar? Við eigum að berjast fyrir kjörum venjulegs fólks í daglegu lífi. Íbúðum á viðráðanlegu verði. Sterku velferðarkerfi. Þjónustu við eldra fólk og öryrkja. Leikskólum fyrir öll börn. Stuðningi í skólunum og öflugu íþrótta- og frístundastarfi.

Þetta snýst ekki um einstaklinga eða tiltekna fulltrúa flokksins. Þannig hefur það aldrei verið. Þetta snýst um hugsjónir okkar og fólkið í borginni – að fulltrúar okkar njóti trausts svo að jafnaðarstefnan fái framgang í Reykjavík.

Getur Samfylkingin leitt breytingar í Reykjavík? Svar mitt er hiklaust: Já. Samfylkingin getur og á að leiða breytingar í borginni. En þá þurfum við að sýna borgarbúum að við höfum kjark til að breyta og að við séum sá flokkur sem er best til þess fallinn. Svarið er ekki alltaf að gera meira af því sama og vona það besta. Stundum verður flokkur sósíaldemókrata að sýna frumkvæði til breytinga. Tíminn er núna.

Ég er íbúi í Reykjavík. Aðfluttur frá Húsavík og bý í leiguhúsnæði með nokkrum félögum sem stunda líka nám í höfuðborginni okkar. Ég er jafnaðarmaður af lífi og sál og forseti Ungs jafnaðarfólks.

Ég styð Pétur H. Marteinsson í 1. sætið í prófkjöri Samfylkingar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor vegna þess að ég treysti honum til að leiða Samfylkinguna og Reykjavík til sigurs. Prófkjörið fer fram 24. janúar og er opið öllum skráðum flokksfélögum. Þú getur tekið þátt með því að skrá þig í flokkinn fyrir miðnætti 22. janúar.

Fram til sigurs!

Höfundur er forseti Ungs jafnaðarfólks.




Skoðun

Sjá meira


×