Sport

Kókaín fannst í lyfjaprófinu en upp­götvaðist allt­of seint

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kaarel Kasper Korge  sést hér í keppni á heimsmeistaramóti.
Kaarel Kasper Korge  sést hér í keppni á heimsmeistaramóti. Getty/Antti Yrjonen

Eistneski skíðagöngumaðurinn Kaarel Kasper Kõrge féll á lyfjaprófi eftir að sannanir fundust um notkun kókaíns í sýni hans.

Jákvæða lyfjaprófið hans uppgötvaðist þó ekki fyrr en eftir að Kõrge lagði skíðin á hilluna, að því er eistneska íþróttablaðið Delfi greinir frá.

Sýnið var tekið í ágúst 2024, þegar hann var enn virkur keppandi.

„Ég viðurkenni að hafa notað efnið í partíi. Það voru augljós mistök. Ég vissi að þetta væri bannað efni og að sem íþróttamaður ber ég ábyrgð á hegðun minni á öllum tímum, óháð aðstæðum. Ég tek ábyrgð á því sem gerðist og sé eftir því,“ sagði Kaarel Kasper Kõrge í yfirlýsingu.

Vegna mistaka í kerfi eistnesku og alþjóðlegu lyfjaeftirlitsstofnananna uppgötvaðist jákvæða sýnið ekki fyrr en nú.

Kõrge var um árabil meðal fremstu skíðagöngumanna Eistlands. Hann hefur tekið þátt í fjórum heimsmeistaramótum og keppti í heimsbikarnum í nokkur tímabil. Besti árangur hans í einstaklingskeppni er 49. sæti í 15 kílómetra göngu með hefðbundinni aðferð frá árinu 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×