Handbolti

Norð­menn á­fram í milliriðla

Aron Guðmundsson skrifar
Sander Sagosen, lykilmaður norska landsliðsins
Sander Sagosen, lykilmaður norska landsliðsins

Norska landsliðið er komið áfram í milliriðla á EM í handbolta og mun spila úrslitaleik við ríkjandi Evrópumeistara Frakka um toppsæti C-riðils í næstu umferð. Noregur hafði betur gegn Tékklandi í kvöld, 29-25

Eftir sigur gegn Úkraínu í fyrstu umferð riðlakeppninnar vissu Norðmenn að sigur gegn Tékkum í kvöld myndi tryggja þeim sæti í milliriðlum. 

Það verk kláruðu Norðmenn en þurftu að hafa fyrir því vegna þess að framan af reyndust Tékkarnir sterkari aðilinn. 

En með August Baskar Pedersen í fararbroddi í markaskorun með níu mörk tókst Norðmönnum að snúa leiknum sér í vil og sigla heim fjögurra marka sigri, 29-25 og þar með stilla upp úrslitaleik við Frakka um toppsæti C-riðils sem færir öðru hvoru liðinu stig inn í milliriðlana. 

Svíar byrja vel

Þá mættu Svíar til leiks af krafti á Evrópumótið með fimm marka sigri á Hollandi í kvöld, 36-31, en liðin eru með Króötum Dags Sigurðssonar og Georgíu í E-riðli. 

Svíar eru líkt og Danir og Norðmenn á heimavelli á mótinu og stemningin á Malmö leikvanginum í kvöld var kyngimögnuð. 

Svíarnir leiddu leikinn gegn Hollendingum allan tímann og Felix Claar, liðsfélagi Ómars Inga, Gísla Þorgeirs og Elvars Arnar hjá stórliði Magdeburgar fór á kostum í kvöld fyrir sænska landsliðið með átta mörk.

Svíar mæta Georgíumönnum í næstu umferð á mánudaginn kemur og svo Króötum Dags Sigurðssonar í lokaumferð riðlakeppninnar á miðvikudaginn næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×