Skoðun

Er tæknin til að skipta yfir í hreina orku til staðar?

Gunnar Einarsson skrifar

Eyþór Eðvarðsson skrifaði grein á Vísi 31-12-25. Í greininni nefnir hann 15 atriði, sem haldið er fram um loftlagsbreytingar, sem hann telur rangfærslur. Hjá honum kemur fram eitt og annað sem verður að teljast vafasamt. Ég ætla að byrja á tíunda lið. Þar stendur meðal annars: „flestar nauðsynlegar lausnir eru þegar til. Seinkun eykur áhættu----„ Vissulega hefur tækninni til að minnka notkun á jarðefna eldsneyti, fleytt fram. Margar góðar lausnir eru til, en það gæti orðið erfitt að koma þeim í notkun í þeim skala og tíma, sem áætlanir gera ráð fyrir. 

Dr. Simon Michaux er ástralskur námufræðingur, sem vann við námuvinnslu í Ástralíu í mörg ár, en er núna prófessor í Finnlandi. Hann er mjög hlynntur því að dregið verði úr notkun á jarðefnaeldsneyti, en hann segir að það verði að hugsa dæmið áður en lagt er af stað. Hann lagðist yfir áætlanirnar og tímaplönin um hvernig gert væri ráð fyrir að draga úr jafnvel verða CO2 hlutlaus fyrir miðja öldina. Hann reiknaði hvað þyrfti af málmum og orku til að af þessu geti orðið, á reiknuðum tíma.

Hann sá fljótlega að miðað við núverandi tækni, þyrfti gríðarlegt magn af allskonar málmum. Við skulum aðeins taka einn, kopar, sem mun þurfa mjög víða og í miklu magni, við orkuskiptin. Hann bendir á, að á undanförnum áratugum, hefur vegna skorts á góðu hráefni, verið farið að vinna kopar úr jarðefnum, sem innihalda aðeins brot af þeirri koparprósentu, sem áður var notuð. Það þarf miklu meiri orku í dag sem gerir framleiðsluna miklu dýrari. Hann telur að það sé útilokað að núverandi námur muni geta framleitt allt þetta magn sem þarf. Ef það á að opna nýjar námur þá getur það tekið 10-20 ár áður en þær fara að skila kopar. Orkan sem þyrfti til að opna hverja námu og smíða hreinsunarstöðvarnar yrði gríðarleg og það mun þurfa að brenna mjög miklu af jarðefnaeldsneyti til að koma námunum af stað og reka þær. Vindmyllur myndu aldrei duga. Það sem þó er verra, er að það eru vandfundnir staðir þar sem hægt er að opna nýjar námur. Koparinn er bara einn af mörgum málmum sem þyrfti.

Útreikningar hans vöktu athygli og hann var fengin til að halda fyrirlestra fyrir stjórnmálamenn og embættismenn hér og þar, meðal annars í Brussel. Þar fékk hann gott hljóð til að lesa upp og sýna glærur. Á eftir var lítið um spurningar. Menn setti hljóða. Það var greinilegt að elítan sem hafði gert þessar áætlanir hafði lítið hugað að hvað þyrfti til. Þeir virtust ekki hafa jarðsamband, lifðu í draumaheimi og reistu skýjaborgir. Hann hélt helst að flestir, sem á hlýddu, hafi farið aftur á skrifstofur sínar og reynt að gleyma þessu. Við eigum að hugsa sjálfstætt og ekki láta glepjast með í illa hugsaðar áætlanir.

Vísindin eru að vinna hörðum höndum, víða um heim við að finna hagstæðar lausnir. Það er margt að gerast og ef við trúum á vísindin, eru góðar líkur á að við getum smátt og smátt minnkað notkun á jarðefna eldsneyti.

Áætlanir sem gera ráð fyrir að heimurinn verði nærri því að vera laus við losun CO2 fyrir 2050 munu ekki ganga eftir, meðal annars verða ekki til aðföng sem þyrfti.

Höfundur er fyrrverandi bóndi.




Skoðun

Sjá meira


×