Handbolti

Knorr lofaði Al­freð: Enginn egóisti og róaði okkur

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason ræðir við sína menn í leiknum við Spán í gær þar sem Þjóðverjar höfðu yfirhöndina allan tímann.
Alfreð Gíslason ræðir við sína menn í leiknum við Spán í gær þar sem Þjóðverjar höfðu yfirhöndina allan tímann. Getty/Sina Schuldt

Eftir gagnrýni Juri Knorr á Alfreð Gíslason, eftir tapið gegn Serbíu á EM í handbolta, töluðu þeir vel um hvorn annan í gær þegar Þýskaland vann Spán og tryggði sér toppsætið í sínum riðli.

Sigurinn gegn Spáni í gærkvöld þýðir að tapið gegn Serbum skiptir engu máli fyrir Þjóðverja sem nú taka tvö stig með sér áfram í krefjandi milliriðil, eins og þeir hefðu óskað sér.

Knorr hafði sagt eftir tapið gegn Serbum að það væri „auðvitað pirrandi að sitja á bekknum og geta ekki hjálpað“ eftir að Alfreð hafði sparað krafta hans í seinni hálfleiknum. En Knorr sagði svo í gær að Alfreð vildi að menn tjáðu sig og að allt væri í góðu þeirra á milli.

„Ég met það mikils að hann tekur engu persónulega. Hann er ekki með stórt egó, hann setur árangurinn ofar öllu, hann vill að við tölum saman og ræðum málin,“ sagði Knorr eftir sigurinn gegn Spáni.

Þá sagðist hann hafa fundið fyrir „öðruvísi afslöppun“ hjá Alfreð: „Það smitaðist kannski yfir á okkur,“ sagði Knorr sem átti flottan leik í sókn Þýskalands í gær.

Ekki nein vandræði með Knorr

Alfreð var á sama máli og Knorr um að allt væri í góðu þeirra á milli, og taldi að ummæli hans hefðu létt af pressunni á liðinu eftir tapið óvænta gegn Serbum.

„Ég á alls ekki í neinum vandræðum með hann, við tölum reglulega saman. Þess er krafist af öllum að þeir segi sína skoðun,“ sagði Alfreð í viðtali við ZDF: „Þetta var aldrei vandamál. Okkur tókst mjög vel að létta pressunni af liðinu,“ bætti hann við.

Stefan Kretzschmar, sem gagnrýnt hafði Alfreð eftir tapið gegn Serbum, sagði á Instagram eftir leikinn í gær: „Landsliðsþjálfarinn er ekki langrækinn. Juri Knorr fékk fullt traust. Og hann stóð við orð sín og fylgdi því eftir. Í leikhléinu stóð hann ekki aðeins við orð sín heldur tók líka af skarið. Þetta var toppleikur hjá Juri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×