Skoðun

Evrópa lætur ekki undan hótunum Trumps um Græn­land

Kristján Vigfússon skrifar

Síðustu mánuði og vikur hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti hótað reglulega að yfirtaka Grænland sem hann hefur krafist að verði hluti af bandarísku landssvæði. Fyrstu viðbrögð Evrópu hafa verið varfærin og reynt hefur verið að tala forsetann til, maður hefur gengið undir mann til að koma einhverri skynsemi að og róa manninn en án árangurs. Nokkur ríki, þar á meðal Frakkland, Noregur og Svíþjóð, hafa þegar sent herlið til Grænlands fyrst og fremst í táknrænum tilgangi til að styðja við dani og þeirra eftirlit á svæðinu. Framvindan er hröð og um helgina tilkynnti Trump (þrátt fyrir að hafa samþykkt samráðshóp um málið með Grænlendingum og Dönum nokkrum dögum fyrr) að hann ætlaði að knésetja alla mótspyrnu með það að markmiði að knýja fram yfirtöku Grænlands með refsitollum á innflutning frá átta evrópuríkjum. Donald Trump sakar sem sagt Danmörku, Þýskaland, Frakkland, Noreg, Svíþjóð, Finnland, Bretland og Holland um að grafa undan öryggishagsmunum Bandaríkjanna. Refsingin eru tollar. Óhætt er að fullyrða að ekki hafi risið upp alvarlegri ágreiningur milli aðildarríkja NATO frá stofnun þess.

Miðað við viðbrögð þjóðarleiðtoga evrópuríkja er ljóst að þolinmæðin er á þrotum og yfirlýsing Trump er dropinn sem fyllti mælinn. Forsætisráðherrar Þýsklands, Frakklands og fjölda annarra evrópuríkja hafa harðlega mótmælt áformum Trumps og tíðir neyðarfundir haldnir um málið innan Evrópusambandsins (ESB) um helgina. Forsætisráðherra Ítalíu Meloni og Starmer forsætisráðherra Bretlands sem hafa verið í náðinni hjá Trump hafa einnig risið upp og harðlega mótmælt bæði áformum hans um yfirtöku Grænlands og þeim hefndartollum sem hann hótar. Forsætis- og utanríkisráðherra Íslands hafa mótmælt af fullum þunga og minnt á það að virða beri fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt þjóða.

Samhliða vaxandi spennu vegna ofurtolla, einangrunarstefnu og linnulausra hótana forseta Bandaríkjanna gagnvart Evrópu hefur ESB tekið stórstíg skref til að efla viðskipti og fríverslun með því að undirrita stærsta viðskiptasamning sögunnar. Þann 17. janúar sl. undirrituðu leiðtogar ESB og Mercosur-ríkjanna í Suður-Ameríku langþráðan fríverslunarsamning í Asunción höfuðborg Paragvæ eftir margra ára samningaviðræður. Ursula von der Leyen forseti Framkvæmdastjórnarinnar lýsti samningnum sem „stærsta fríverslunarsvæði í heimi“ sem nái til yfir 700 milljóna íbúa og taki til allt að 20% af vergri landsframleiðslu heimsins. Samningurinn er mikilvægt pólitískt útspil gegn einangrunar- og tollastefnu Trumps, en talið er að evrópsk fyrirtæki muni spara um fjóra milljarða evra árlega í útflutningsgjöld vegna afnáms tolla á bíla, lyf og vélar, auk þess að tryggja aðgang að mikilvægum hráefnum fyrir orkuvinnslu.

Viðræður ESB um fríverslunarsamning við Indland eru einnig á lokastigi og gætu leitt til undirritunar í Delhi síðar í þessum mánuði. Þessi samningur, sem indverskir ráðamenn hafa kallað „móður allra viðskiptasamninga,“ mun opna markað sem nær til fjórðungs mannkyns. Samningur ESB kleift að auka viðskipti sín og dýpka tengsl sín við ört vaxandi hagkerfi í Asíu.

Þessir tveir samningar sýna að ESB hefur ekki bara vilja heldur mikla getu til að svara tollahótunum Trumps með því að fjölga og dýpka fríverslunarsamninga við einstök ríki og ríkjabandalög og draga þannig úr efnahagslegu mikilvægi bandaríska markaðarins. Markmiðið er ekki síður að losa sambandið undan því að vera háð geðþóttaákvörðunum og duttlungum frá Washington. Athyglisvert er að Kanada er í sömu vegferð eftir að hafa skrifað nýlega undir nýjan fríverslunarsamning við Kína til að draga úr áhrifum tollastríðs Trumps á almenning í Kanada.

Höfundur er aðjúnkt og doktor í Strategíu við Háskólann í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Byggjum fyrir fólk

Hafdís Hanna Ægisdóttir,Hjördís Sveinsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×