Handbolti

Dagur öskraði á einn Svíann í kvöld og blótaði honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson var mjög reiður eftir olnbogaskotið og sýnir hér dómurum merki um olnbogann.
Dagur Sigurðsson var mjög reiður eftir olnbogaskotið og sýnir hér dómurum merki um olnbogann. Getty/Sanjin Strukic

Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í króatíska landsliðinu áttu erfitt kvöld á Evrópumótinu í handbolta þegar þeir voru rassskelltir af sterkum Svíum með átta mörkum í hreinum úrslitaleik um sigurinn í riðlinum.

Skapofsi íslenska þjálfarans var til umræðu í frétt króatíska blaðsins Vecernji.

Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska landsliðsins, var mjög reiður vegna slakrar frammistöðu króatíska landsliðsins gegn Svíþjóð en hann var einnig brjálaður út í Svíann Eric Johansson.

„Hann reiddist einnig Svíunum fyrir að gefa Josip Simic olnbogaskot. Dómararnir skoðuðu atvikið og gáfu sænska leikmanninum brottvísun og Sigurðsson öskraði reiðilega á Svíann: „F*ck off, elbow“,“ skrifaði blaðamaður Vecernji en myndband af atvikinu vakti athygli í króatískum miðlum.

„Svona getum við ekki spilað á móti neinum“

„Við spiluðum slakan leik. Við vorum enn inn í leiknum eftir fyrri hálfleikinn og við samþykktum í hálfleik að taka eitt skref í einu. Við töpuðum mörgum boltum og margt gerðist í seinni hálfleik, þannig að með slíkri spilamennsku er engin leið að vinna Svíþjóð í Svíþjóð,“ sagði Zvonimir Srna, besti leikmaður króatíska liðsins.

Svo virðist sem vörnin hafi ekki verið í lagi hjá liðinu í kvöld.

„Vörnin var ekki á réttu getustigi því við gerðum mörg tæknileg mistök og náðum því ekki að stilla upp vörninni. „Svona getum við ekki spilað á móti neinum,“ sagði Srna.

„Verður hið sanna Króatía á móti Íslandi“

Hann var einnig spurður um dráttinn í aðra umferð sem er að mati blaðamanns mjög hagstæður fyrir Króatíu:

„Við tjáum okkur ekki um dráttinn fyrir fram. Við lentum í svipaðri stöðu í Króatíu þegar við töpuðum fyrir Egyptalandi, svo við ætlum að rífa okkur upp aftur. Við munum örugglega ekki gefast upp andlega, við munum setjast niður og ræða málin. Þið getið verið viss um að það verður hið sanna Króatía á móti Íslandi,“ sagði Srna.

„Það er erfitt að lýsa þessu svona strax eftir leikinn. Þetta vorum ekki við. Við spiluðum ekki eins og við höfðum samið um. Frá byrjun vantaði ákveðni í vörnina. Við fundum ekki taktinn okkar. Í seinni hálfleik leið mér eins og við hefðum ekki skorað mark í tíu mínútur. Palicka varði frábærlega. En við skulum reisa höfuðið. Engin uppgjöf,“ sagði Ivan Martinovic, fyrirliði liðsins.

Næsti andstæðingur Króatíu er Ísland.

„Hver leikur er núna eins og lítill úrslitaleikur. Engin mistök eru leyfð lengur, við þurfum að vera þéttir og hjálpa hver öðrum,“ sagði Martinovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×