Handbolti

„Nú vitum við alla­vega að Danir eru mann­legir“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Melvyn Richardson var ekki viss um að Danir væru mannlegir fyrr en hann sá þá tapa gegn Portúgal. 
Melvyn Richardson var ekki viss um að Danir væru mannlegir fyrr en hann sá þá tapa gegn Portúgal.  Vísir/Getty

Eftir mjög óvænt tap í riðlakeppninni gegn Portúgal þarf danska landsliðið helst að vinna alla sína leiki í milliriðlinum til að komast áfram í undanúrslit. Fyrsti af fjórum leikjum liðsins verður gegn ríkjandi Evrópumeisturunum frá Frakklandi í kvöld.

„Þetta kom mér reyndar ekkert svo mikið á óvart, því ég veit hversu mikil gæði búa í portúgalska liðinu, en nú vitum við allavega að Danir eru mannlegir“ sagði Melvyn Richardson, leikmaður Frakklands, fyrir leikinn.

Þetta var fyrsta tap Danmerkur á heimavelli í einhver tólf ár, en þeir eru strax komnir með upp í kok af taptilfinningunni.

„Tilfinningin er sú að við erum orðnir ógeðslega þreyttir á því að tapa. Við erum ekki vanir því í þessu liði, en á móti kemur tækifæri til að sýna hvað í okkur býr. Við fáum erfiðan andstæðing og þurfum að stíga upp, sýna karakter. Þetta verður alvöru próf fyrir okkur en við hlökkum til að takast á við það“ sagði Rasmus Lauge, leikmaður Danmerkur.

Einn besti rígur handboltans

Danmörk og Frakkland hafa mæst margoft undanfarin ár, í úrslitaleiknum á síðasta EM og úrslitaleiknum á þarsíðasta HM til dæmis.

„Þetta hefur verið einn besti rígur handboltans síðustu fimm eða sex ár. Yfirleitt eru þessi lið að keppa um verðlaun en þetta verður alvöru, alvöru slagur í kvöld“ sagði Dika Mem, leikmaður Frakklands.

„Við héldum að við værum eina liðið sem gæti unnið Danmörku, en svo kemur í Portúgal getur það líka, þannig að þeir eru ekkert óstöðvandi“ bætti Aymeric Minne við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×