Fótbolti

Freyr orðinn þreyttur á enda­lausu slúðri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Freyr ræddi við blaðamenn fyrir leik Brann og Midtjylland.
Freyr ræddi við blaðamenn fyrir leik Brann og Midtjylland. Oguz Yeter/Anadolu via Getty Images

Freyr Alexandersson er orðinn mjög þreyttur á því að fá spurningar um hvort einn leikmaður Brann sé á förum frá liðinu.

Freyr stýrir Brann í Evrópudeildinni gegn danska liðinu Midtjylland í kvöld, og líkt og fyrir síðustu leiki var hann spurður hvort Emil Kornvig væri á förum, en þessi sóknarsinnaði miðjumaður hefur verið orðaður við skipti til Widzew Lodz í Póllandi.

„Það hafa verið alls konar sögusagnir á sveimi síðustu tvær vikur um Emil. Ég ætla ekki að tjá mig meira um þetta. Hann mun spila leikinn [gegn Midjtylland]. Það er það eina sem skiptir mig máli.“

Blaðamennirnir á blaðamannafundinum slepptu Frey samt ekki svo auðveldlega og spurðu hvort sá leikur yrði hans síðasti fyrir félagið.

„Hann mun spila leikinn á morgun. Svo sjáum við til hvað gerist“ sagði Freyr.

Freyr hefur þurft að svara mörgum svona spurningum síðustu vikur, líkt og margir aðrir þjálfarar þurfa að gera þegar félagaskiptaglugginn er opinn. Fjölmiðlafárið í kringum Brann þykir hins vegar alveg sérlega mikið á mælikvarða Norðurlandanna.

Brann er búið að selja tvo leikmenn, Japhet Sery Larsen og Eivind Helland, og Jacob Kirk Lungi Sørensen og fleiri eru orðaðir við brottför. 

Freyr segir þetta hafa áhrif á undirbúninginn.

„Ég held að Lungi og hinir strákarnir finni ekki svo mikið fyrir þessu. En fyrir mig hafa þetta verið margir klukkutímar í símanum og á fundum og svoleiðis. Þjálfari sem er á leið í Evrópudeildina vill auðvitað ekki sjá leikmenn selda, en við gátum ekki sagt nei við Jacob og Eivind.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×