Körfubolti

„Langar að biðja Stólana af­sökunar á því sem ég lét út úr mér í síðustu um­ferð“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hjalti Þór Vilhjálmsson baðst afsökunar í viðtali eftir leikinn gegn ÍA í kvöld.
Hjalti Þór Vilhjálmsson baðst afsökunar í viðtali eftir leikinn gegn ÍA í kvöld. vísir/hulda margrét

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Álftaness, baðst afsökunar á ummælum sínum eftir leikinn gegn Grindavík þar sem hann sagði að Justin James væri á leið til Tindastóls.

James lék í kvöld sinn fyrsta leik með Álftanesi á þessu tímabili. Hann skoraði átján stig þegar liðið sigraði ÍA, 89-83.

Álftanes tilkynnti um endurkomu James á sunnudaginn en tveimur dögum áður, eftir leikinn gegn Grindavík, sagði Hjalti að Bandaríkjamaðurinn myndi ganga í raðir Tindastóls. Formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, Dagur Þór Baldvinsson, sagði ekkert til í þeim orðum Hjalta í samtali við Vísi á laugardaginn.

Hjalti segist hafa komist illa að orði eftir leikinn í Grindavík.

„Þetta var svolítið skakkt og illa orðað hjá mér. Mig langar að biðja Stólana afsökunar á því sem ég lét út úr mér í síðustu umferð,“ sagði Hjalti eftir leikinn í Kaldalónshöllinni á Álftanesi í kvöld.

„Það var nú bara þannig að ég var nýbúinn að tapa leik og gerði einhvern veginn ráð fyrir því að Justin væri að fara þangað. Seinna um kvöldið fékk ég svo símtal um að Justin sé að koma til okkar. Það er ánægjulegt en ég biðst innilegrar afsökunar.“

En á föstudaginn hvort gerði Hjalti ráð fyrir því að James myndi fara til Álftaness eða Tindastóls?

„Ég hélt að hann væri að fara þangað og sagði það í viðtali. En einhverra hluta vegna valdi hann okkur og stjórnin á hrós skilið fyrir að landa þessu,“ sagði Hjalti sem var að vonum sáttur með James eftir leikinn gegn ÍA en sá bandaríski skoraði afar mikilvæga þriggja stiga körfu undir lokin.

„Hann er leiðtogi og maður fann það strax á fyrstu æfingunni hjá honum að hann væri kominn aftur. Hann lét menn heyra það,“ sagði Hjalti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×