Skoðun

Eru kórallar á leið í sögu­bækurnar?

Jean-Rémi Chareyre skrifar

Kórallar, þessar merkilegu lífverur sem eru einhvers konar líffræðilegir blendingar (tilkomnir vegna samlífis dýrs og plöntu) hafa verið til staðar á jörðinni í hundruð milljóna ára, mun lengur en við framagosarnir úr homo sapiens fjölskyldunni. Þeir hafa augljóslega verið fjölbreyttir að stærð og fjölbreytni, en þeim hefur tekist að lifa af allar helstu umbyltingar á jörðinni.

Þeir þekja aðeins um 0,2% af hafsbotninum en skaffa samt heimili fyrir um 25% sjávartegunda og eru þess vegna tákn um líffjölbreytni neðansjávar. Hins vegar þola þessar merkilegu lífverur ekki mikinn hita, og vilja helst vatn sem er ekki of súrt (reyndar er sýrustig sjávar örlítið basískt en súrnun sjávar veldur þvi að sjórinn verður síður basískur).

Því miður fyrir þá er losun gróðurhúsalofttegunda frá athöfnum okkar ekki góðar fréttir, og þá sérstaklega losun CO₂, af tveimur ástæðum: hún veldur því að hitastig yfirborðsvatns hækkar og sýrustig lækkar, þar sem hafið gleypir um það bil einn þriðja af því CO₂ sem mannlegar athafnir losa. Lægra sýrustig gerir kórallinum erfiðara fyrir að byggja upp stoðgrind sína.

Þó að núverandi hlýnun sé „aðeins“ um 1,5°c, þá hefur kóralþekja í Karíbahafinu þegar dregist saman um helming samanborið við 1980, samkvæmt nýlegri skýrslu frá Global Coral Reef Monitoring Network.

Á þeim svæðum sem um ræðir var „aðeins“ um rúmlega eina gráðu hlýnun að ræða, og súrnun upp á 0,1 Ph-stig. En breyting sem hljómar minniháttar í okkar eyrun getur valdið umtalsvert tjón!

Höfundar skýrslunnar bæta reyndar við að aðrar breytingar geta líka haft áhrif. Loftslagsbreytingar auka styrk hitabeltisfellibylja, sem geta síðan valdið alvarlegum skaða á kóralrifjum.

Loftslagsbreytingar eru heldur ekki eini þátturinn sem ógnar tilveru kóralla: staðbundin mengun (þéttleiki íbúa á strandsvæðum nálægt kóröllum hefur verið að aukast), sjúkdómar og ofveiði á jurtaætum gegna einnig hlutverki (fisktegundir sem sem eru jurtaætur koma í veg fyrir offjölgun þörunga, en slíkir þörungar gera ungum kóröllum erfitt að koma sér fyrir). Þegar kórallar deyja taka þörungar við í þeirra stað.

En er eitthvað hægt að gera? Já, segja höfundar skýrslunnar. Fyrst og fremst þarf augljóslega að draga úr losun eins fljótt og auðið er.

En það er líka nauðsynlegt að takmarka veiðar á jurtaætum og leyfa þær tegundir kóralla að koma sér fyrir sem hafa meira þol gagnvart háu hitastigi.

Þessar aðgerðir munu þó ekki duga til að bæta upp fyrir tjónið, og nú snýst baráttan fyrst og fremst um það að „bjarga því sem bjargað verður“, það er að segja að varðveita eins stóran hluta og mögulegt er af því sem eftir er af kóralrifunum.

Höfundar skýrslunar gera ráð fyrir að miðað við áframhaldandi losun gæti Ph-gildið lækkað um 0,4 stig árið 2100, og flestallir hitabeltiskórallar á jörðinni verða þá annað hvort horfnir eða í dauðateygjunum.

Og gervigreindin, sama hvað sumum finnst hún frábær, mun ekki koma í staðinn fyrir þá!

Greinarhöfundur er sjálfstætt starfandi blaðamaður og meðlimur í loftslagshópnum París 1,5, sem beitir sér fyrir því að Ísland leggi sitt af mörkum til að leysa loftslagsvandann.




Skoðun

Sjá meira


×