Körfubolti

Danskur lands­liðs­maður greindist með krabba­mein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Möller ætlaði að hefja nám næsta vetur með Michigan í bandaríska háskólakörfuboltanum og það er enn stefnan.
Marcus Möller ætlaði að hefja nám næsta vetur með Michigan í bandaríska háskólakörfuboltanum og það er enn stefnan. @umichbball

Danski körfuboltamaðurinn Marcus Möller hefur greinst með eistnakrabbamein en hann er leikmaður með danska körfuboltalandsliðinu.

„Marcus er staddur í Danmörku þar sem hann fær nauðsynlega læknismeðferð. Marcus er í góðum höndum, umkringdur fjölskyldu sinni, sínu nánasta fólki og hæfileikaríku starfsfólki dönsku heilbrigðisþjónustunnar,“ segir í tilkynningu frá danska körfuknattleikssambandinu.

„Á þessari stundu er heilsa og vellíðan Marcusar í algerum forgangi. Öll áhersla er lögð á meðferð hans og bata og að hann fái þá ró og þann tíma sem aðstæðurnar krefjast,“ og þar segir enn fremur.

„Danska körfuknattleikssambandið vill lýsa yfir fullum stuðningi, umhyggju og stuðningi við Marcus á þessum erfiðu tímum. Við berum mikið traust til þess að hann muni takast á við þessa áskorun með þeim kjarki, styrk og einurð sem hefur alltaf einkennt hann – bæði sem íþróttamann og manneskju. Við biðjum jafnframt um virðingu og skilning á einkalífi Marcusar á þessum viðkvæmum tíma.“

Möller, sem er fæddur árið 2006, er leikmaður Unicaja Malaga á Spáni í vetur en hann er 2,21 metra hár miðherji. Hann mun skiljanlega taka sér hlé frá íþróttinni á meðan hann berst við krabbameinið.

Möller ætlaði að hefja nám næsta vetur með Michigan í bandaríska háskólakörfuboltanum.

„Á meðan hann einbeitir sér að heilsu sinni og bata hlökkum við innilega til að fá Marcus til okkar í Ann Arbor í sumar og erum ótrúlega spennt fyrir framtíð hans sem Wolverine,“ birti körfuboltalið Michigan á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×