Innlent

Icelandair aflýsir flug­ferðum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Aftakaveður er í Bandaríkjunum.
Aftakaveður er í Bandaríkjunum. Vísir/Vilhelm

Icelandair hefur aflýst fimm flugferðum til Bandaríkjanna í dag. Nístingskuldi er vestanhafs og afar hvasst.

Á flugáætlun Icelandair voru flug til Boston, New York, Baltimore, Newark og Washington en þeim hefur öllum verið aflýst. Enn er áætlað að fljúga til Seattle, Orlando, Minneapolis og Chicago.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta hjá Icelandair, staðfestir að flugferðunum var aflýst vegna veðurs. 

„Þetta hefur áhrif á um 1100 farþega og vinnum við nú að því að endurbóka þá. Við höldum áfram að fylgjast grannt með því hvernig veðrið þróast og munum halda farþegum upplýstum ef frekari breytingar verða á flugi,“ segir Ásdís Ýr.

Samkvæmt umfjöllun Reuters er um aftakaveður að ræða sem verður hvað verst á norðausturhluta Bandaríkjanna en nær alveg til New Mexico-fylkis sem er suðvestar. Yfir 230 þúsund eru án rafmagns.

Það snjóar víða, til að mynda í Tennessee.AP

Veðurfræðingar spáðu snjókomu, slyddu, ísköldu regni og miklu frosti. Yfir 230 þúsund eru án rafmagns, flestir búsettir í fylkjunum Louisiana, Mississippi, Texas, Tennessee og New Mexico.

Icelandair er ekki eina flugfélagið sem aflýsti flugferðum en gert er ráð fyrir að yfir tíu þúsund flugferðum hafi verið aflýst um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×