Innlent

Ein fjöl­skylda að­stoðuð með gistingu vegna brunans

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Aðalheiður Jónsdóttir teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum.
Aðalheiður Jónsdóttir teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum. Vísir/Bjarni

Sextán manns leituðu aðstoðar Rauða krossins í Reykjanesbæ í gærkvöldi vegna eldsvoðans í fjölbýlishúsi við Vatnsholt í bænum í nótt. Ein fjölskylda var aðstoðuð með gistingu vegna brunans.

Þetta segir Aðalheiður Jónsdóttir teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum í samtali við fréttastofu. Líkt og fram hefur komið liggur ein kona þungt haldin á gjörgæsludeild eftir eldsvoðann þar sem sjö hundar drápust. Fjölbýlishúsið er á tveimur hæðum og í því eru sex íbúðir.

„Það voru um sex eða sjö sjálfboðaliðar að störfum í gærkvöldi og í nótt. Það voru um sextán aðilar sem komu til okkar sem við vorum að sinna,“ segir Aðalheiður. Verkefni Rauða krossins hafi verið að koma upp fjöldahjálparstöð og aðstoða íbúa, meðal annars veita þeim sálrænan stuðning.

Hvað þurfti fólk að dvelja lengi hjá Rauða krossinum í gær?

„Það var frekar stutt. Þetta voru kannski einn og hálfur, tveir tímar sem fólk var hjá okkur. Vel flestir fóru til vina og ættingja, gátu fengið að dvelja þar en það var ein fjölskylda sem við aðstoðuðum með gistingu í nótt.“

Hvert er framhaldið fyrir þetta fólk?

„Þeir sem lentu í þessu geta haft samband við okkur ef þau óska eftir að fá samtal og sálrænan stuðning en svo í raun og veru þarf hver og einn að athuga með sín mál. Hvort fólk komist aftur heim til sín, hvort þetta sé tryggingamál, samskipti við leigusala, eða hvernig sem það er, það er bara eitthvað sem fólk gerir sjálft.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×