Erlent

Dómari stöðvar brott­flutning Liam og föður hans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Myndin af Liam vakti athygli og óhug út um allan heim.
Myndin af Liam vakti athygli og óhug út um allan heim. Columbia Heights Public Schools

Innflytjendayfirvöld í Bandaríkjunum mega ekki senda Liam Conejo Ramos og föður hans, Adrian Conejo Arias, úr landi á meðan mál þeirra er til umfjöllunar hjá dómstólum. Liam, 5 ára, rataði í heimsfréttirnar í síðustu viku, þegar skólayfirvöld í Minneapolis deildu mynd af honum þar sem hann hafði verið tekinn af yfirvöldum í aðgerð gegn föður hans. 

Það var dómarinn Fred Biery í Texas sem ákvað að banna yfirvöldum að flytja feðgana úr landi. Biery var skipaður í embætti af Bill Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseta. Liam og faðir hans voru fluttir til Texas eftir að þeir voru hnepptir í varðhald í Minnesota.

Ágreiningur er enn uppi um það hvað atvikaðist á vettvangi en yfirvöld hafa haldið því fram að myndin af Liam, sem fór eins og eldur í sinu á netinu og vakti mikla reiði, hafi verið tekin eftir að fulltrúar innflytjendayfirvalda tóku drenginn undir sinn væng eftir að faðir hans hljóp á brott. Þá segja þau móður hans ekki hafa neitt viljað með hann að gera.

Þau héldu því einnig fram fyrir dómi að Adrian, sem er frá Ekvador, hefði komið ólöglega inn í landið.

Lögmaður hans segir hins vegar að feðgarnir hafi gefið sig fram á landamærastöð í Brownsville í Texas og farið að öllum reglum sem hælisleitendum ber að fylgja. Þá eru lýsingar skólayfirvalda af atburðum á skjön við fullyrðingar yfirvalda, þar sem þau segja fulltrúa á vettvangi hafa notað drenginn sem „beitu“ með því að láta hann banka upp á heima hjá sér.

Skólayfirvöld og þingmenn í Minnesota voru ómyrk í máli á blaðamannafundi í St. Paul í gær, þar sem þau lýstu þeim áhrifum sem aðgerðir yfirvalda hefðu haft á nemendur. Að minnsta kosti fjórir nemendur hafa verið handteknir í Columbia Heigths, þar sem Liam og faðir hans búa, þar af tveir á leiðinni í skólann.

„Börnin spyrja: Geta þeir tekið okkur? Og við vitum ekki hvernig við eigum að svara þeim,“ sagði Peg Nelson, kennari í Columbia Heights.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×