Viðskipti innlent

Upp­sagnir hjá Alvotech

Árni Sæberg skrifar
Róbert Wessmann er stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessmann er stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Vísir/Alvotech

Fimmtán starfsmönnum Alvotech á Íslandi var sagt upp í byrjun vikunnar og öðrum eins fjölda á skrifstofum félagsins erlendis. 

Þetta staðfestir Benedikt Stefánsson, upplýsingafulltrúi Alvotech, í samtali við Vísi. Hann segir uppsagnirnar tilkomnar vegna skipulagsbreytinga.

„Það hafa, eins og allir vita, verið miklar breytingar í gegnum síðustu misseri. Félagið er auðvitað að auka framleiðslu mjög mikið og sölu á mörgum mörkuðum. Það er verið að gera ýmsar skipulagsbreytingar í samræmi við það. Áherslan er mest á viðskiptalegu hliðina og vöxt hennar. Framleiðslu, rannsókn og þróun og allt sem því tengist. Þannig að það eru komin ákveðin kaflaskil á öðrum sviðum.“

Þau svið séu stoðdeildir félagsins og yfirstjórn. Skipulagsbreytingarnar séu í sjálfu sér eðlilegur hluti af eðlilegri þróun félagsins miðað við áætlanir stjórnenda þess næstu mánuði og misseri.

Þá segir hann að á Íslandi vinni eitt þúsund manns hjá félaginu og 1.500 á heimsvísu. Félagið sé í gríðarlegum vexti og til að mynda hafi starfsmönnum fjölgað um 400 á síðasta ári á heimsvísu. Eðlilegt sé að samhliða slíkum vexti verði breytingar sem leiði til þess að starfsfólk fari frá félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×