Innlent

Sakar mót­fram­bjóðanda um trúnaðar­brest og kallar eftir próf­kjöri

Lovísa Arnardóttir skrifar
Þórhallur segir trúnaðarbrest innan flokksins og kallar eftir prófkjöri.
Þórhallur segir trúnaðarbrest innan flokksins og kallar eftir prófkjöri. Aðsend

Þórhallur Jónsson, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, gefur kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í sveitarstjórnarkosningum í vor. Hann kallar eftir því að farið verði í prófkjör og segir trúnaðarbrest að fyrrverandi formaður fulltrúaráðs, sem tók ákvörðun um röðun á lista, bjóði sig nú fram til oddvita.

Röðun um val frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins fer fram á fundi fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Akureyri þann 7. febrúar.

Áður höfðu Berglind Ósk Guðmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Heimir Örn Árnason, sitjandi oddviti flokksins á Akureyri og formaður bæjarráðs, bæði tilkynnt um framboð til oddvita en tilkynntu svo um bandalag um síðustu helgi.

Mynduðu bandalag um fyrstu tvö sætin

Þórhallur sakar Berglindi um trúnaðarbrest í framboðstilkynningu sinni. Ákveðið hafi verið að fara í röðunarfyrirkomulag á lista þegar Heimir hafi verið einn í framboði. Berglind hafi áður gegnt stöðu formanns fulltrúaráðs sem tók ákvörðun um röðun á lista en svo ákveðið að segja af sér sem formaður og boðið sig fram til oddvita. Hún hafi svo myndað bandalag með Heimi án þess að ræða það við fulltrúaráð eða stjórnir flokksins á Akureyri.

Vegna þess sjái hann sig knúinn til að gefa kost á sér til að leiða lista flokksins fyrir kosningarnar í vor.

„Aðgengi fráfarandi formanns fulltrúaráðs að kjörskrá umfram aðra frambjóðendur setur trúverðugleika röðunarfyrirkomulags og kosningar þar um í uppnám. Með framboði mínu skora ég einnig á flokkinn að halda stefnu sinni og hefðum, fara í prófkjör og leyfa sjálfstæðisfólki á Akureyri að velja sér oddvita með lýðræðið í fyrirrúmi,“ segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×