Sport

Ragna í nýju hlut­verki hjá TBR

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ragna Ingólfsdóttir, nýráðinn íþróttastjóri, og Ástþór Magnús Þórhallsson, framkvæmdastjóri TBR.
Ragna Ingólfsdóttir, nýráðinn íþróttastjóri, og Ástþór Magnús Þórhallsson, framkvæmdastjóri TBR. TBR

Ragna Ingólfsdóttir hefur verið ráðin til starfa sem íþróttastjóri afreks- og þróunarmála hjá Tennis- og Badmintonfélagi Reykjavíkur.

Ragna keppti tvisvar í badminton fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum, í Peking 2008 og í Lundúnum 2012. Alls á hún að baki tuttugu Íslandsmeistaratitla í badminton og hæst náði hún 37. sæti heimslistans, þá var hún einnig meðal tíu efstu í einliðaleik kvenna á Evrópumótaröðinni.

Ragna er með BA gráðu í heimspeki og sálfræði og er lærður jógakennari og heilsunuddari. Hún er nú í meistaranámi í íþróttavísindum með íþróttasálfræði sem sérgrein í Háskólanum í Reykjavík.

Ragna hefur starfað síðustu ár sem þjálfari hjá TBR en félagið segir þessa breytingu marka nýja tíma. Með henni fáist skýrari sýn á framtíð félagsins, sem samræmist metnaði stjórnar og félagsins að efla enn frekar grasrótarstarf, afreksstarf og framþróun innan félagsins.

„Ástríða mín er íþróttir, íþróttafólk og íþróttahreyfingin á Íslandi. Ég hef unnið við ýmislegt tengt íþróttum í gegnum tíðina, m.a. starfaði ég sem verkefnastjóri hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands í sjö ár og þekki því íþróttahreyfinguna vel. Ég hef mikla reynslu úr íþróttaheiminum, en ég æfði badminton í 21 ár og þar af í 11 ár sem atvinnumaður. Ég öðlaðist dýrmæta reynslu í gegnum feril minn í badmintoninu, þar sem ég ferðaðist um allan heim og keppti á alþjóðlegum mótum til þess að koma mér sem hæst á heimslista og spila á meðal bestu einliðaleikskvenna í heimi. Sú reynsla nýtist mér vel í leik og starfi í dag“ sagði Ragna.

„Markmið mitt í starfi íþróttastjóra afreks- og þróunarmála er að byggja upp markvisst og faglegt afreksumhverfi í TBR. Ég vil leggja áherslu á að styrkja iðkendur sem hafa skýra sýn og metnað og veita þeim heildræna og einstaklingsmiðaða þjálfun. Við í TBR viljum fjölga iðkendum sem stefna á alþjóðlega mótaþátttöku, vilja koma sér ofar á heimslista og stefna á keppni á Evrópu- og heimsmeistaramótum ásamt Ólympíuleikum. Lykilatriði næstu ára hvað varðar þennan hluta starfsins er að byggja upp afreksmenningu í TBR þar sem fagmennska og metnaður eru í forgrunni og þar sem iðkendur fá þann stuðning sem þeir þurfa til að ná sínum hámarksárangri á heilbrigðan hátt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×