Sport

Ís­lenska sérsveitin verður á pöllunum annað kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmannasveit Íslands verður í stúkunni annað kvöld.
Stuðningsmannasveit Íslands verður í stúkunni annað kvöld. Vísir/Vilhelm

Sérsveitin, stuðningsmannasveit íslenska handboltalandsliðsins, fékk miða á undanúrslitaleik Íslands og Danmerkur annað kvöld.

HSÍ hefur ekki fengið marga miða á leikinn enda orðið uppselt og Danir hafa keypt flesta miðana sem voru í boði.

Handknattleikssamband Íslands staðfesti í kvöld að íslenska stuðningsmannasveitin verði í  stúkunni.

„Eftir þrotlausa vinnu stjórnar og starfsfólks skrifstofu HSÍ hefur Sérsveitin, stuðningsmannasveit Íslands, tryggt sér miða á úrslitahelgi Evrópumótsins,“ segir í fréttinni.

Í tilkynningu frá HSÍ fyrr í dag kom fram að engar hópaferðir yrðu í boði til úrslitahelgarinnar á vegum Icelandair, vegna skorts á miðum sem EHF úthlutaði Íslandi. Viðburðurinn er því uppseldur.

„Þetta eru afar gleðileg tíðindi, þar sem dyggustu stuðningsmenn Íslands fá tækifæri til að vera á staðnum og hvetja strákana okkar til dáða á úrslitahelginni,“ segir í fréttinni.

Sérsveitin staðfesti það líka á samfélagsmiðlum sínum að eftir mjög stressandi sólarhring hafi komið í ljós að íslenska stuðningsmannasveitin verður í stúkunni.

Íslensku strákarnir fá því einhvern stuðning í stúkunni í leiknum þótt Danirnir verði miklu fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×