Viðskipti innlent

Meiri líkur á svikum þegar börn læri um fjár­mál á netinu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu  og Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri Fjármálavits.
Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu og Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri Fjármálavits. Bylgjan

Sérfræðingar í fjármálalæsi barna segja lykilatriði að fjármálalæsi verði gert að skyldufagi í öllum grunn- og framhaldsskólum. Þannig fái öll börn sömu tækifæri til að læra um það hvernig á að byggja upp heilbrigðan fjárhag.

Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri Fjármálavits, og Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, reka samstarfsvettvanginn Fjármálavit í samstarfi við Landssamtök lífeyrissjóða sem styrkja vettvanginn. Fjármálavit hefur verið rekið í ellefu ár og er í samstarfi við grunn- og framhaldsskóla sem fá aðgang að náms- og lesefni.

„Fjármálavit gengur fyrst og fremst út á það að bara að reyna að efla ungt fólk en fyrst og fremst erum við núna með það markmið að gera fjármálakennslu að skyldufagi í öllum grunnskólum landsins og helst framhaldsskólum líka,“ segir Kristín og að þær hafi byrjað að setja meiri þrýsting á það fyrir um þremur árum þegar námsskrá grunnskóla var til endurskoðunar.

Erfitt að vinna sig úr mistökum í fjármálum

Þær segja fjármálalæsi vissulega kennt í mörgum skólum og það sé víða gert mjög vel, en það sé ekki kennsla alls staðar. Þó að minnst sé á fjármálalæsi í námsskrá sé það ekki nóg, heldur þurfi að gera það að skyldufagi og þannig tryggja að öll börn fari út í lífið með grundvallarþekkingu í fjármálum.

Þær segja mega efla fjármálavit barna og fullorðinna. Þegar fólk byrjar að misstíga sig sé mjög erfitt að vinna sig út úr því.

Hún segir að samkvæmt niðurstöðum Gallup hafi um 11 prósent fólks lært um fjármálalæsi í skólum en um 74 prósent svari því að þau telji eðlilegt að slík kennsla sé í skólum.

„En á móti kemur líka að um 90 prósent þeirra sem spurðir eru segjast vilja hafa lært meira um fjármál í skólum. Ég set þetta oft í samhengi við umferðarreglur. Við setjum ekki börnin okkar út í umferðina nema þau þekki umferðarreglurnar,“ segir hún og að á sama hátt eigi ekki að setja ungmennin út í lífið án grundvallarþekkingar í fjármálum.

Mikilvægt að byrja snemma að kenna börnum að spara

Þær segja mikilvægast að tileinka sér sparnaðarhyggju og sparnaðarvitund.

„Við erum dálítið að hamra á því að byrja snemma, að tileinka sér þessa vitund að spara. Að huga að því hvað þú ætlar að gera eftir tíu ár kannski, hvað þú ætlar að eiga af peningum og hvernig þú ætlar að ávaxta peningana þína.“

Margir krakkar vinni með skóla og það sé gott að vera búinn að sá þessum fræjum áður en það gerist. Þá segja þær einnig mikilvægt að börnin skilji hvað það þýðir að taka lán, hvað vextir eru á lánum og þessi helstu hugtök.

Þær segja lítið til af gögnum um það hvernig börnum vegni eftir að hafa fengið slíka fræðslu. Börn séu ekki spurð út í þessa fræðslu eða það mælt neins staðar. Því skorti verulega gögn til að raunverulega meta umfang vandans eða árangur.

Þær segjast í stöðugu samtali við skólana og kennararnir séu áhugasamir og ánægðir með að geta sótt þekkingu til þeirra.

„Aðalmálið er að öll börn fái tækifæri til að byggja upp heilbrigðan fjárhag. Þetta er tæki til að jafna stöðu allra barna. Það er rétt rúmur helmingur barna sem er að læra um fjármál frá foreldrum sínum … En hvað þá um hinn helminginn? Stór hluti barna er þá að læra um fjármál á netinu og þar er hætta á bara svikum. Það eru meiri líkur á að það sé verið að kenna þér að taka skyndilán eða skammtímalán og það er mikil samfélagspressa,“ segir Heiðrún.

Skipti máli hvað er verið að kenna

Hún segir að í sumum skólum sé þetta skyldufag og þar læri þau um launaseðla, lán og hvernig á að lesa þá. Annars staðar sé þetta valfag og þar komist ekki allir að. Svo sums staðar sé engin kennsla. Þær segja svo líka skipta höfuðmáli hvað er verið að kenna. Kennslan verði að vera heildræn. Til dæmis sé ekki nóg að fjalla bara um heimilisinnkaup eða gerð ferilskrár. Börnin verði að átta sig á því að það sé verið að kenna þeim fjármálalæsi.

„Það er rosalega mikilvægt að öll börn fái sömu tækifæri til að byggja upp heilbrigðan fjárhag. Það á ekki að skipta máli hver bakgrunnur barna er og það á alls ekki að skipta máli í hvaða skólahverfi eða hvernig kennara þú færð,“ segir Heiðrún og að bakgrunnur foreldra og þekking þeirra skipti verulegu máli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×