Erlent

Taugatitringur á mörkuðum
Hlutabréfamarkaðir í Asíu og Evrópu hafa hrunið frá því þeir voru opnaðir í morgun. Áframhaldandi óvissu vegna samdráttar á bandarískum fasteignamarkaði er þar um að kenna. Krónan hefur fallið um 12% á einum mánuði og veiktist um 2% í morgun. Úrvalsvísitalan lækkaði þá um rúm 4%.

Óttast að 330 hafi týnt lífi
Óttast að rúmlega 300 manns hafi týnt lífi í tveimur öflugum jarðskjálftum sem skóku Perú í nótt. Björgunarmenn reyna nú hvað þeir geta til að leita eftirlifenda í rústum húsa.

Vill búa til súpu úr flökkuhundum
Flökkuhundar eru mikið vandamál í Nýju Delí á Indlandi. Þeir eru þar í tugþúsunda tali. Ýmislegt hefur verið reynt til þess að fækka þeim, en það hefur lítinn árangur borið. Borgarfulltrúi í borginni lagði í gær fram tillögu um að vandinn yrði lestur með því að fanga hundana og senda þá til Kóreu, þar sem hundakjöt er talið mikið lostæti.

Ég er á lausu
Hringur sem gefur til kynna að þú sért á lausu virðist vera að fara sigurför um heiminn. Hringinn geta borið bæði karlmenn og konur. Hann hefur nú selst í yfir 130 þúsund eintökum og framleiðandinn er að hefja mikla auglýsingaherferð. Hann er nýkominn úr kynningarferð til Kína, þar sem viðtökurnar voru mjög góðar, að hans sögn.

Eldflaug skotið á sænska farþegaflugvél
Eldflaug var skotið á sænska farþegaflugvél sem var í flugtaki frá Norður-Írak í síðustu viku. Eldflaugin sprakk rétt fyrir framan vélina, en ekki urðu á henni neinar skemmdir. Vélin var frá flugfélaginu Nordic Airways og um borð voru 137 farþegar og áhöfn.

Hráolíuverð lækkar á markaði
Heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkkaði um allt að rúman einn og hálfan bandaríkjadal samhliða falli á helstu fjármálamörkuðum. Inn í lækkunina spilar betri veðurspá við Mexíkóflóa en reiknað er með að hitabeltisstormar sem ógnuðu olíuvinnslustöðvum við flóann muni verða lengra frá landi en búist var við.

Komdu þér út kerling
Dyraverðir á lúxushóteli í Cancún í Mexíkó brugðust skjótt við þegar indíánakona í litríkum klæðum gekk inn í hótelið þeirra. "Enga götusölu hér," sögðu þeir. Þeir tóku konuna föstum tökum og ætluðu að henda henni út. Sem betur fór var í anddyrinu fólk sem þekkti Rigobertu Menchu, friðarverðlaunahafa Nóbels og frambjóðanda í forsetakosningum í Gvatemala.

Blóðið ekki úr Madeleine litlu
Blóðið sem fannst í herberginu þar sem Madeleine McCann var rænt í Portúgal, reyndist ekki vera úr henni. DNA rannsókn í Bretlandi hefur leitt þetta í ljós að sögn Sky fréttastofunnar. Blóðið er sagt vera úr karlmanni.

Matsfyrirtækin brugðust seint við
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) ætlar að skoða hvers vegna lánshæfismatsfyrirtæki brugðust seint við samdrætti á bandarískum fasteignalánamarkaði, að sögn vefútgáfu breska blaðsins Times. Blaðið hefur eftir ráðamönnum í Brussel að matsfyrirtækin hefðu átt að bregðast fyrr við og vara við kaupum á bandarískum fasteignalánasöfnum í ljósi samdráttarins sem hefur falli á hlutabréfamörkuðum víða um heim.


A380 flýgur með farþega í októberlok
Fyrsta A380 risaþotan frá Airbus fer í loftið með almenna farþega 25. október næstkomandi, að sögn forsvarsmanna asíska flugfélagsins Singapore Airlines, en það er fyrsta flugfélagið til að fá þessar nýjustu risaþotur afhentar. Flogið verður til Sidney í Ástralíu. Fyrstu miðarnir í flugið verða boðnir upp á uppboðsvefnum ebay.

Grafa með skóflum og berum höndum
Björgunarmenn og almennir borgarar grafa nú með skóflum og berum höndum í rústum húsa í bænum Kataníja í Norður-Írak þar sem sjálfsvígssprengjuárás varð minnst tvö hundruð manns að bana í gær. Fjórar flutningabifreiðar fullar af sprengiefni voru sprengdar í loft upp nær samtímis.

Illdeila mafíufjölskyldna teygir sig til Þýskalands
Svo virðist sem áratugagömul illdeila tveggja ítalskra mafíufjölskyldna hafi teygt sig til Þýskalands. Sex karlmenn tengdir annarri fjölskyldunni voru allir myrtir í Duisburg í nótt.

Hráolíuverð hækkar í verði
Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði á fjármálamarkaði í dag eftir að orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá því að hráolíu- og eldsneytisbirgðir landsins hefðu dregist meira saman en spáð hafði verið. Veðurspáin næstu vikur réð sömuleiðis nokkru um hækkunina en því er spáð að olíuvinnslustöðvum við Mexíkóflóa geti stafað hætta af hitabeltisstormum á næstunni.

Hækkun á bandarískum hlutabréfamarkaði
Gengi hlutabréfa hækkaði nokkuð við opnun viðskipta á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag eftir skell í gær. Helstu vísitölurnar þrjár hafa hækkað um tæp 0,7 prósent. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,58 prósent í Kauphöll Íslands í dag og stendur í 7.844 stigum. Gengi bréfa í Icelandair Group hefur lækkað mest, eða um 4,49 prósent.

Vísitölur lækka í Asíu og Evrópu
Nokkur lækkun var á hlutabréfamörkuðum í Asíu og Evrópu í dag. Þetta er í takti við lækkun á bandaríska markaðnum í gær. Gengi Nikkei-vísitölunnar í Japan lækkaði um 2,2 prósent við lokun markaða þar í landi í morgun en vísitalan í Taívan fór niður um 3,6 prósent. Hin breska FTSE-100 vísitalan hefur lækkað um eitt prósent það sem af er dags.

Sjálfstæð þjóð í 60 ár
60 ár er í dag frá því Pakistanar brutust undan nýlendustjórn Breta og stofnuðu eigin ríki. Þeim tímamótum var fagnað víða um landið í dag. Indverjar fagna sínu frelsi á morgun.

Mikill samdráttur hjá Virgin Atlantic
Hagnaður breska flugfélagsins Virgin Atlantic nam 6,6 milljónum punda, jafnvirði tæplega 880 milljóna íslenskra króna, á síðasta ári samanborið við 77,5 milljónir punda árið á undan. Þetta er rúmlega 90 prósenta samdráttur á milli ára. Auðkýfingurinn Richard Branson, stærsti hluthafi flugfélagsins, segir óhagstæð skilyrði hafa bitnað á hagnaði flugfélagsins.

Rauður dagur á bandarískum markaði
Dagurinn hefur verið rauður á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag en helstu vísitölurnar þrjár hafa allar lækkað um rúmt prósent það sem af er dags. Á sama tíma hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 1,24 prósent en hún fór nú um þrjúleytið undir 8.000 stig.

Hækkanir á bandarískum hlutabréfamarkaði
Gengi hlutabréfa hefur hækkað í sveiflukenndum viðskiptum á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum í dag. Gengi hlutabréfa í Evrópu hefur sveiflast nokkuð það sem af er dags á meðan Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,85 prósent.

Pakistanar fagna 60 ára sjálfstæði
Sextíu ár eru í dag liðin frá því Pakistan fékk sjálfstæði frá Bretum. Þeim tímamótum er fagnað í landinu í dag. 1947 var landið sem nú er Pakistan enn hluti af Indlandi sem Bretar réðu þá. Pakistan varð sjálfstætt ríki 14. ágúst það ár, og Indland degi síðar.

Hlutabréf lækka í Evrópu en hækka í Japan
Gengi hlutabréfa lækkaði lítillega við opnun viðskipta á fjármálamörkuðum í Evrópu í dag. Þetta kemur í kjölfar lækkunar á markaði í Bandaríkjunum í gær. Gengi Nikkei-vísitölunnar hækkaði hins vegar lítillega við lokun viðskipta í kauphöllinni í Japan. Flestar vísitölur hækkuðu í gær eftir skell á föstudag að bandaríska hlutabréfamarkaðnum undanskildum.

Vísitölur lækkuðu í Bandaríkjunum
Vísitölur lækkuðu lítillega á bandarískum hlutabréfamörkuðum í dag þrátt fyrir hækkun við upphaf viðskipta. Vísitölur í Evrópu hækkuðu sömuleiðis, þar á meðal Úrvalsvísitalan í Kauphöll Íslands, sem hækkaði um 1,32 prósent og endaði í 8.099 stigum.

Kalashnikov riffillinn 60 ára
Kalashnikov árásarriffillinn rússneski er sextugur á þessu ári. Hönnur þessa heimsfræga drápstóls var heiðraður fyrir hönnunina í heimabæ sínum í dag. Þar bölvaði hann eftirlíkingum og sagðist gleðajst þegar sköpunarverk sitt væri notað í göfugum tilgangi.

Kínverjar nota genameðferð við krabbameini
Læknar í Kína hafa notað genameðferð við krabbameini og segja árangurinn góðann. Vestræn ríki hafa hikað við að fara þá leið.

2 gíslum sleppt, 18 enn í haldi
Uppreisnarmenn Talíbana í Afganistan létu í dag tvær suður-kóreskar konur lausar úr gíslingu. 18 Suður-kóreumenn eru þó enn í haldi þeirra.

Hagnaður Blackstone þrefaldast
Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Blackstone Group skilaði hagnaði upp á 774 milljónir bandaríkjadala, rétt tæplega 51 milljarð íslenskra króna, á öðrum fjórðungi ársins. Þetta er þrefalt meiri hagnaður en á sama tíma fyrir ári. Fasteignafjárfestingarnar skiluðu langmestum hagnaði.

Farið fram á að Marta Lovísa afsali sér titlinum
Farið er fram á það í norska blaðinu Bergens Tidende í dag að norska prinsessan Marta Lovísa afsali sér titlinum. Í blaðinu er því haldið fram að hún nýti sér titilinn og frægðina til að græða peninga, en hún hefur komið á fót skóla þar sem nemendum er kennt að tala við engla.

Sænsk ungmenni leika sér að dauðanum
Sænsk ungmenni virðast sum hver leggja stund á það að taka hvort annað hálstaki þar til líður yfir þau. "Leikinn" taka þau upp á símana sína og setja inn á netið. Tugi slíkra myndbanda er að finna á You Tube síðunni.

Ekki búist við miklum hátíðarhöldum á afmælisdegi Castro
Ekki er búist við hefðbundnum hátíðarhöldum í tilefni af 81 árs afmæli Fidel Castro, forseta Cúbu. Á miðnætti var flugeldum skotið á loft í höfuðborginni Havana en ekki er von á frekari viðburðum. Á síðasta afmælisdegi forsetans hélt fólk kertavökur og fór í stuðningsgöngur.